140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:57]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þegar fram koma ábendingar í vinnu nefndar við yfirferð frumvarps um að það mál kunni að stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar beri að gæta varúðar og menn verði einfaldlega að gefa sér tíma til að ganga úr skugga um að engin stjórnarskrárleg álitaefni felist í frumvarpinu sem ekki hafa verið gaumgæfð nákvæmlega. Mér sýnist á nefndarálitum í þessu máli að mjög hafi skort á að fylgt hafi verið eftir ábendingum um þessi efni. Um leið og við ræðum þetta frumvarp er ég líka viss um að það eru ekkert síður stjórnarskrárleg álitaefni varðandi hitt málið, þ.e. frumvarpið um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þar eru líka stór álitamál sem snerta stjórnarskrána og fullt tilefni er til þess að taka það til umræðu hér í þingsal.

Hv. þingmaður nefndi eitt atriði sem er það að menn komist með misjöfnum hætti frá þessum skatti, að heimildir séu til að veita undanþágur, og að því hafi verið velt upp að það kunni að jaðra við brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, þ.e. að allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum. Það er mjög mikilvægt atriði. Mér finnst líka mikilvægt í því samhengi að velta því fyrir sér: Hvaða hugsun býr þar að baki ef menn ætla sér að veita undanþágur og búa til svigrúm, eins og við nefndum áðan, fyrir þá sem eru sérstaklega skuldsettir o.s.frv.? Eru menn þá ekki í raun að segja að við ætlum að innheimta hér gjald en bara af þeim sem gera þetta vel og almennilega og hafi eitthvað upp úr því? Allir skussarnir, allir hinir, sem gera þetta með óarðbærum hætti sleppa við gjaldtökuna. Var einhver að biðja um slíkt kerfi?