140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið kallað eftir því að hv. þm. Þór Saari komi hingað til að fjalla um þá breytingartillögu sem hann hefur flutt við þetta veiðigjaldafrumvarp. Það hefur vakið athygli manna að samkvæmt henni mundi veiðigjaldið hækka, skilst mér, um 45 milljarða kr. Þetta vekur auðvitað mikla undrun og ekki að ástæðulausu sem menn kalla eftir því að hv. þingmaður geri grein fyrir sjónarmiði sínu. En það er ekki síður mikilvægt að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna komi hingað. Við skulum ekki gleyma því að þegar þetta frumvarp var fyrst lagt fram og þegar textinn var lesinn í gegn og rýndur af sérfræðingum kom í ljós að eins og texti frumvarpsins var skrifaður hefði veiðigjaldið ekki orðið 15 milljarðar eins og nú er verið að tala um, ekki 25 milljarðar eins og stóð í greinargerðinni heldur 50 milljarðar kr. Það var í raun og veru það sem frumvarpið boðaði. Greinargerðin sagði annað en þetta var talið svo vitlaust (Forseti hringir.) að enginn sérfræðingur treysti sér til að reikna það síðan áfram því að það sáu auðvitað allir hverjar afleiðingarnar væru. (Forseti hringir.) Það er full ástæða til þess, úr því að kallað er eftir hv. þm. Þór Saari, (Forseti hringir.) að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna sem lögðu þessa vitleysu fram komi hingað líka.