140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú ekki hlynntur hugsjónum hv. þingmanns um fullkomna markaðsvæðingu eða frjálshyggjuvæðingu sjávarútvegs á Íslandi. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um hættuna sem hann kenndi við Sovétríkin og er oft áberandi í frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður talaði um að það gæti endað með ríkisútgerð ef fram héldi sem horfði með þessi frumvörp og fyrirtæki í sjávarútvegi yrðu gjaldþrota.

Ég velti fyrir mér hvort það megi ekki halda því fram að miðað við þá hugmyndafræði sem lögð er til grundvallar í þessum frumvörpum og þá orðræðu sem viðhöfð hefur verið til þess að rökstyðja þau þá væri eðlilegt að stjórnarliðar, ef þeir ætluðu að vera samkvæmir sjálfum sér, töluðu einfaldlega fyrir ríkisútgerð vegna þess að röksemdafærslan hnígur öll að því. Það hafa þeir að vísu ekki gert, þeir hafa ekki talað fyrir ríkisútgerð, vonandi vegna þess að þeir gera sér grein fyrir því að með ríkisútgerð mundi hagur þjóðarinnar ekki vænkast. Þá yrði sjávarútvegurinn ekki í stakk búinn til að bæta lífsgæði í landinu.

Hvers vegna ætli það sé ef ríkisútgerðin fengi allar tekjur og þar með ríkið allan hagnaðinn til sín? Jú, einfaldlega væntanlega vegna þess að hagnaðurinn af því yrði minni. Er hv. þingmaður sammála mér um að það sem við ættum að gera sé að búa til fiskveiðistjórnarkerfi sem tryggir heildarhagsmunina en liður í því séu markaðslegir þættir? Þeir væru þó innan ákveðins ramma vegna þess að fullkomið frelsi er ekki til þess fallið að tryggja hagsmuni almennings og hagsmuni heildarinnar og hámarksverðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi, þ.e. að menn fái jafnmikið fyrir (Forseti hringir.) auðlindina og kostur er.