140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég nefndi samvinnufélög og eftir því sem ég þekki best byggja þau á markaði. Þau byggja á markaði og samkeppni og voru einmitt stofnuð á sínum tíma sérstaklega til að veita samkeppni og lækka verð. Mér þykir því ekkert skrýtið þó að stærstu útgerðarfyrirtækin séu rekin í samvinnuformi, það finnst mér vera mjög eðlilegt.

Varðandi orðaleikinn með RÚV hef ég í tvígang flutt frumvörp um að selja RÚV til starfsmannanna, eða þeir hafi forkaupsrétt, af því að ég tel að þar sé ríkið sem eini eigandinn með mjög sterka stöðu, eignarhald á fjölmiðlum heitir það víst. Það er einn aðili sem á Ríkisútvarpið og starfsmenn þess vita hver ákveður útgjöldin til stofnunarinnar, þ.e. fjármálaráðherra. Það er eins gott að vera góður og blíður við hann.

Varðandi launin hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra sagt á fundi í dag, í sjónvarpinu í kvöld og víðar að þetta frumvarp muni ekki koma við launin. Hann er náttúrlega bara hræddur við sjómenn, það er ekkert annað, við skulum bara orða það hreint út, hann óttast að styggja sjómenn og hugsanlega aðra.

Ég get sagt að öll skattlagning á fyrirtæki gerir þau síður hæf til að borga laun sem og annað. Þau geta ekki borgað sömu laun og áður þegar búið er að skattleggja þau svona mikið, og út af hlutaskiptunum verða fyrirtækin enn verr sett sem getur hugsanlega orðið til þess að einhver fyrirtæki verði gjaldþrota og þá munu stéttarfélög sjómanna jafnvel lækka kröfur sínar um laun til að halda fyrirtækjunum gangandi. Skattlagningin mun því hafa áhrif á launin.