140. löggjafarþing — 113. fundur,  5. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held líka að það sé einsýnt að þegar fyrirtæki þarf að bregðast við auknum kostnaði, þegar það hefur minna fé til annarra hluta rekstrarins mun fyrirtækið grípa til einhvers konar aðhalds, jafnvel fækka skipum, loka vinnslum o.s.frv., sem þýðir að sjálfsögðu færri störf. Hugsanlega munu fyrirtækin þurfa að segja upp. Fyrirtæki gætu þurft að semja við starfsfólkið um að minnka vinnu o.s.frv. Það er augljóst að aukaálögur sem þessar, sem er sýnt að komi mjög illa við mörg fyrirtæki, kannski ekki alveg öll en mörg, munu hafa þessi áhrif.

Það sem mig langar líka að velta upp við hv. þingmann er að í þeim umsögnum sem ég hef séð frá fjármálafyrirtækjum, þar á meðal Samtökum fjármálafyrirtækja, Arion banka, Landsbankanum o.fl., er varað við því að frumvarp um veiðigjöld nái fram að ganga vegna þeirra áhrifa sem það kann að hafa á þau fyrirtæki sem þessar stofnanir eiga viðskipti við, sem þær hafa lánað fjármuni til eða keypt einhverjar skuldir sem þau eiga í dag eða innleyst eða hvernig þetta allt saman virkar nú. Þau vara hreinlega við því að fyrirtækin verði verr í stakk búin til þess að standa við skuldbindingar sínar. Fyrirtæki sem hafa farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu þurfa jafnvel að gera það aftur til að bregðast við þeim breyttu aðstæðum sem verða eftir að þetta frumvarp er komið í gegn, ef það nær að fara alla leið.

Einnig kemur t.d. fram í umsögn Arion banka að bankinn sjái fram á að þurfa að leysa til sín ákveðinn hluta af þeim veðum sem hann á í dag vegna þess að fyrirtækin muni ekki geta rekið sig áfram. Þá velti ég fyrir mér hvort stjórnvöld séu hreint og beint að ýta undir það að fleiri fyrirtæki lendi í fanginu á fjármálastofnunum eða að fjármálastofnanirnar sitji uppi verðminni en ella og þar af leiðandi verði mun erfiðara að selja þær (Forseti hringir.) en nú til að uppfylla kröfur og markmið fjárfestingaráætlunarinnar frægu.