140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er nú svo, því miður, að það er ekkert nýtt að sumir hv. stjórnarþingmenn séu með ónot og fúlar hrotur í garð sjávarútvegsins. Þetta er ömurlegt vegna þess að það eiga allir samleið í þessum geira, bæði útvegsmenn, sjómenn og landsmenn allir. Þetta ber ekki vott um mikinn skilning eða vilja til sátta og til árangurs.

Á fjölda funda sjómanna og landverkafólks um allt land eru núna fordæmd áform ríkisstjórnarinnar um róttækar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og andmælt kröftuglega þeirri ringulreið og byggðaröskun sem mun fylgja í kjölfarið ef af verður. Þetta eru varnaðarorð fólksins í landinu, þetta eru varnaðarorð þeirra manna og kvenna sem vinna hörðum höndum til sjós og lands. Við eigum að taka mark á því og hlusta á það.

Það skiptir miklu að sníða agnúana af þessu kerfi, auka veiðiskyldu, greiða auðlindagjald í meira mæli af því að það gengur vel en það verður líka að vera í hófi en ekki eins og lagt er upp með að slátra mjólkurkúnni, ekki einu sinni blóðmjólka hana heldur slátra henni. Þetta eru hlutir sem við eigum að hlusta á á hv. Alþingi (Forseti hringir.) og það sem útvegsmenn eru að gera núna eru bara eðlileg viðbrögð til að vekja (Forseti hringir.) athygli á grafalvarlegri stöðu.