140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á því að það eru um það bil þrjár vikur til forsetakosninga, ef ég veit rétt. — (Gripið fram í.) Vill hæstv. forseti benda þingmanninum á að ég er með orðið hérna. — Það styttist því í þær kosningar og er óheppilegt, held ég, að þingið starfi mjög mikið ofan í þá kosningabaráttu sem nú þegar er hafin og er fram undan, hvað þá að fara alveg upp að kjördegi þegar kemur að því að kjósa forseta, sem væri vitanlega enn verra ef forsetakosningabaráttan bærist með einhverjum hætti inn í þingsal sem gæti orðið býsna athyglisvert. Ég vil því óska eftir að forseti beiti sér fyrir því að botn komist í þingstörfin þannig að þingið sé í fyrsta lagi ekki að skyggja með einhverjum hætti á forsetakosningarnar og þá kosningabaráttu sem þar er. Við verðum að sjálfsögðu að bera virðingu fyrir því embætti sem þarna er í húfi, það er verið að kjósa forseta lýðveldisins. Því ættum við að sjá sóma okkar í því að gefa því ágæta fólki sem þar er í framboði svigrúm til að sinna sinni baráttu.

Ég hygg að til séu nokkur fordæmi fyrir því hvenær þing hefur hætt þegar komið er að forsetakosningum. Ég held að það væri gott fyrir forsætisnefnd að setjast yfir það og finna þar af leiðandi dagsetningu þar sem forsætisnefnd eða forseti þingsins lýkur þingstörfum. Það er ekki hægt að halda þinginu hér þó að stjórnarliðar hafi komið seint og illa fram með þau mál sem þeir hafa lagt fram með og jafnvel illa búin. Það þarf að gefa öðrum svigrúm líka sem þurfa og eiga það skilið þó ekki væri nema vegna virðingarinnar einnar.