140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þingið hefur rætt undanfarið mjög ítarlega um gjaldtöku í sjávarútvegi og ég hef saknað þess að stjórnarliðar taki þátt í umræðunni. Það hefur mjög margt athyglisvert komið fram í þessari umræðu sem gott væri að fá svör við. Ég óska eftir því að ræða við hv. þm. Mörð Árnason um hvort áhugi sé hjá Samfylkingunni að ræða þessi mál og hvort Samfylkingin hafi áhuga á sjávarútvegsmálum yfirleitt í fyrsta lagi.

Síðan vildi ég heyra sjónarmið hans á því að flotinn er nú bundinn í höfn, hvort það sé allt í lagi frá hans sjónarhorni. Þá er spurningin um það hvort hv. þingmaður hafi trú á markaði og samkeppni, því að í þessu frumvarpi er mjög miklu stýrt ofan frá, heilli grein er stýrt ofan frá, og markaður og samkeppni er látin alveg lönd og leið.

Loks vildi ég spyrja hv. þingmann um það sem ég hef rætt mikið um, hvort það sé samasemmerki á milli ríkis og þjóðar, þ.e. hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra Steingrímur J. Sigfússon, sem fær heilmikil völd með þessu frumvarpi, sé sama og Jón og Gunna, þ.e. íbúar landsins, hvort hv. þingmaður hafi heyrt þau sjónarmið sem hafa komið frá landsbyggðinni um að þetta sé í rauninni skattlagning á landsbyggðina og auki miðstýringarvaldið í Reykjavík, og hvort æskilegt sé að flytja enn fleira fólk til Reykjavíkur frá landsbyggðinni.