140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þm. Skúla Helgasonar er rétt að varpa þeirri spurningu fram hvort hv. þingmaður telji sjómenn, landverkafólk og þá skjólstæðinga ASÍ sem samtökin starfa fyrir, vera forréttindastétt. (Gripið fram í.) Þetta eru allt aðilar sem mótmælt hafa áformum (Gripið fram í.) ríkisstjórnarflokkanna og menn sem koma hingað í pontu og tala eins og þeir séu að vinna að einhverri sátt ættu að líta í eigin barm, og hlusta á sín eigin orð og þau stóru orð sem féllu (Gripið fram í.) hér, bæði í dag og í gær, af hálfu (Gripið fram í.) hv. þingmanns. Menn geta ekki leyft sér að tala svona.

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Frú forseti. Við erum hér á erfiðum tímum í sögu íslensku þjóðarinnar, ríkissjóður stendur ekki vel og við vitum öll að hér þarf að skera niður. Menn eru gera það og það hefur margoft verið sagt í þessum stól, af mér og öðrum hv. þingmönnum, að það þurfi að gera það og forgangsraða í þágu grunnþjónustu.

Það veldur mér því miklum áhyggjum að rekast á fréttir eins og þær sem berast frá Vík í Mýrdal þar sem verið er að loka heilsugæslunni hálfan daginn. Ég verð að segja að hér er gengið nærri grunnþjónustunni og ég vil hvetja hv. þingmenn stjórnarliðsins til að fara ofan í saumana á því með hvaða hætti er verið að ganga að grunnþjónustunni í landinu.

Ég óska eftir liðsinni við að leiðrétta þetta og ekki bara liðsinni þingmanna úr Suðurkjördæmi, heldur jafnframt þingmanna eins og hv. þm. Marðar Árnasonar sem talaði í IPA-styrkja málinu með mikilli samúð gagnvart þeim héruðum sem eru í Skaftártungu, Skaftárhreppi og Mýrdalnum. (Gripið fram í.) Ég vil hvetja þann hv. þingmann, sem er í öðrum ríkisstjórnarflokknum, til að leggjast á árarnar með okkur til að styrkja byggðirnar þar austur frá. (Gripið fram í.) Ég vil hvetja þann hv. þingmann til að vera jafnmálefnalegur í þessari umræðu, þegar við tölum um niðurskurð í grunnþjónustunni í þessum byggðum, og hann var (Forseti hringir.) þegar hann talaði um IPA-styrkina. (Gripið fram í.)