140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég kem hér til að lýsa yfir hrifningu minni og aðdáun á útgerðarmanninum Guðmundi Kristjánssyni, oft kenndum við Brim. Ég vil segja það svona í einlægni við LÍÚ-flokkana hér á þinginu, Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk, að það væri miklu nær að hafa hreinskilinn og skýran flutningsmann þessa máls hér í þingsalnum heldur en þá sem flækja málin með aukaatriðum.

Guðmundur Kristjánsson sagði í gær, á hinum fræga fundi með starfsmönnum Brims og sjávarútvegsráðherra og hv. þm. Jóni Gunnarssyni, sem er nú einhverra hluta vegna farinn úr salnum. (JónG: Ég … að hlusta á þig.) Nú, þarna er hv. þm. Jón Gunnarsson, það er einmitt frétt hér á forsíðu DV sem varðar hann líka. Guðmundur Kristjánsson kemst að kjarna málsins og segir að sá sem eigi kvótann sé útgerðin, skipin sem eiga þennan rétt. DV einfaldar þetta (Gripið fram í.) ósköp einfaldlega á forsíðu sinni og hefur eftir Guðmundi Kristjánssyni: „Við eigum kvótann.“ Það er það sem málið snýst (Gripið fram í.) um.

Kjarni þess máls sem við ræðum hér er sá hvort þjóðin á að geta notið auðlinda sinna eða hvort sjávarauðlindin hefur verið færð ákveðnum hópi manna, misjafn sauður í mörgu fé þar, fínir menn sumir, aðrir skrýtnir, (Gripið fram í.) og hvort þessum hópi manna hafi verið færður …

(Forseti (RR): Einn fund í salnum, hv. þingmenn.)

… hlutur í þessari auðlind. Það er það sem málið snýst um og það er það sem við eigum að ræða. Þau frumvörp sem hér eru lögð fram eru til að leiðrétta, að minnsta kosti að einhverju leyti, það óréttlæti sem í þessu felst.

Af því að spurt var þá er fyrirsögnin „Missti stjórn á mér“ ekki um hv. þm. Jón Gunnarsson, heldur um öryggisvörðinn á Hlemmi.