140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Fólki verður tíðrætt hér í dag um veiðigjaldafrumvarpið og fiskveiðistjórnarmálin sem skiljanlegt er, ég tala nú ekki um (Gripið fram í.) þegar samtökin LÍÚ beita atvinnurekendavaldi sínu svo grímulaust sem raun ber vitni þessa dagana, og beita sjómönnum og landverkafólki fyrir sig sem lifandi mannlegum skildi.

Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir spyr: Ætla menn að halda því fram að sjómenn og landverkafólk sé forréttindastétt? Það er röng spurning. Það eru ekki sjómenn og landverkafólk sem eru að stefna flotanum í land. Það er ekki landverkafólkið sem stendur í þessum (Gripið fram í.) aðgerðum núna. Það er útgerðin, vinnuveitandi þessa fólks.

Í hvaða stöðu er sjómaður eða landverkakona þegar vinnuveitandinn kemur og segir: Nú stendur þú með mér, þú ágæti starfsmaður sem ert á launum hjá mér — í hvaða stöðu eru starfsmenn stöndugra sjávarútvegsfyrirtækja til að standa á móti þeirra vilja? Það segir sig auðvitað sjálft að fólk er ekki í neinni stöðu til þess. Það er verið að beita hér grímulausu atvinnurekenda- og vinnuveitendavaldi og beita þessu fólki fyrir sig sem mannlegum skildi. (Gripið fram í.) Það sýnir hvers eðlis málið er.

Það er alveg rétt að bæði þessi mál eru afar umdeild núna og ekki síst fiskveiðistjórnarfrumvarpið, harkan og stríðsyfirlýsingarnar frá LÍÚ verulega miklar. Ég er farin að hallast að því, frekar en að við förum að gefa einhvern afslátt í því máli, að við ættum kannski frekar að bíða með það og fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Heyr!) Það liggur fyrir þingsályktunartillaga sem ég flutti á Alþingi Íslendinga síðastliðið haust, og reyndar líka árið áður um það mál að þjóðin verði spurð (Forseti hringir.) grundvallarspurninga í þessu máli og síðan verði farið með það veganesti í að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu fyrir næstu áramót.