140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég er þingmaður fyrir kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu og sumir telja að þeir þingmenn líti ekkert út fyrir sitt eigið kjördæmi. Það er ekki rétt og ég verð að viðurkenna að ég hef mjög miklar áhyggjur af þeim frumvörpum sem fyrir liggja um fiskveiðistjórn og veiðigjöld, alveg gríðarlegar áhyggjur.

Um 90% af fiskveiðiheimildunum eru úti á landsbyggðinni. Þær umsagnir sem borist hafa um fiskveiðistjórnarmálin og veiðigjöldin eru mjög eindregnar. Varað er við því að ganga svo hart fram sem þar er boðað.

Meiri hlutinn hér á þinginu hefur reynt að taka eitthvert tillit til þeirra umsagna og hefur lagt fram tillögu um að bakka að hluta til og milda áhrifin. En ég tel að umsagnirnar sem ég hef verið að reyna að kynna mér séu það alvarlegar og að nefndarálit meiri hlutans, þar sem verið er að færa rök fyrir breytingunum, sé ekki eins ígrundað og þyrfti að vera í svona stóru, mikilvægu og þungu máli.

Ég kem því hingað upp til að taka undir þá tillögu sem flutt var hér áðan af hv. þm. Illuga Gunnarssyni. Ég tel að senda verði tillögur meiri hlutans, breytingartillögurnar, til umsagnar hagsmunaaðila, og sérstaklega í skoðun hjá sérfræðingum sem atvinnuveganefnd hefur nú þegar nýtt sér, í fræðilega skoðun, ítarlegri en framkvæmd hefur verið.

Ég veit ekki hvaða orð ég á að nota, ég vil eiginlega nota orðið glapræði. Ég tel að það sé glapræði ef það verður ekki gert. Það sýnir allt of mikla áhættusækni ef þessar (Forseti hringir.) tillögur verða ekki sendar til umsagnar. Þetta er það alvarlegt mál, hefur það mikil áhrif, sérstaklega á landsbyggðinni, að við getum ekki leyft okkur (Forseti hringir.) svona léttvæg vinnubrögð í svona stóru máli.