140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem talaði hér áðan. Það er mjög mikilvægt þegar breytingartillögur koma fram að kallað sé eftir mati á áhrifum þeirra.

Málið er að sjálfsögðu mjög yfirgripsmikið og flókið í heild og þær athugasemdir sem komið hafa fram eru í raun allar á einn veg. Í það minnsta væri eðlilegt að þeir sérfræðingar sem fjallað hafa um málið kæmu að því með einhverjum hætti en að sjálfsögðu væri æskilegast að hægt væri að láta þá sem hafa sent inn athugasemdir fá málið aftur til skoðunar með einhverjum hætti.

Í grunninn má segja að málin séu þannig úr garði gerð að þau séu varla hæf til að klára þau á þinginu eins og þau líta út. Ljóst er að þau hefðu þurft miklu betri undirbúning og vinnu áður en þau komu hingað inn í þingið, ekki síst vegna þess að þeir aðilar sem höfðu sent inn athugasemdir hefðu margir hverjir getað bent á ágallana ef samráð hefði verið haft við þá við gerð málsins. Það er sá galli sem er mjög áberandi í öllu þessu máli og í allri þeirri umfjöllun sem hér hefur verið.

Það er líka hárrétt hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að áhyggjur þingmanna eru þvert á kjördæmi, þetta er ekki einkamál okkar landsbyggðarþingmanna, það er ekki þannig. Áhrifin af frumvarpinu er gríðarlega mikil og margir þingmenn höfuðborgarsvæðisins deila að sjálfsögðu áhyggjum með landsbyggðinni og öllum svæðum landsins þegar að þessu kemur. Svo við horfum nú ekki á þá staðreynd að obbinn af þjónustufyrirtækjum er á höfuðborgarsvæðinu þannig að ég hefði haldið að mjög eftirsóknarvert væri fyrir sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að setjast yfir þessa hluti og meta þá hreinlega út frá hagsmunum sínum, þ.e. út frá þeim fyrirtækjum og starfsmönnum sem eru að vinna í sjávarútvegi. Ég nefni Hafnarfjörð sem dæmi. Þar er fjöldinn allur af litlum og stórum fyrirtækjum að þjónusta þennan atvinnuveg.

Frú forseti. Það hefur komið fram að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði ákveðnar skoðanir á veiðigjöldum rétt fyrir síðustu aldamót og hefur nokkuð verið fjallað um það hér. Ég held að í sjálfu sér hafi ekkert breyst varðandi þær forsendur sem ráðherrann gefur sér í viðtali eða í sinni greiningu sem fjallað er um í fréttabréfinu Útvegurinn, þar sem hann varar sterklega við áhrifum veiðigjalda á fyrirtækin og á landsbyggðina sérstaklega. Vitanlega er mjög athyglisvert að hæstv. ráðherra hafi skipt svo algjörlega um skoðun á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því hann fór í þetta viðtal, þáverandi þingmaður stjórnarandstöðunnar en nú ráðherra. Ég ætla aðeins að vitna í viðtalið, með leyfi forseta, þar sem núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, segir:

„Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. Velferð þjóðarinnar á fyrstu árum og áratugum næstu aldar kemur til með að ráðast mikið af því hversu vel sjávarútveginum gengur að byggja sig upp og þróast inn í framtíðina sem matvælastóriðja, sem hátæknivædd og þróuð grein …“

Hæstv. ráðherra sýndi í gær á fjölmennum fundi með starfsmönnum Brims í Reykjavík súlurit yfir gengi sjávarútvegsins nokkuð mörg ár aftur í tímann. Samkvæmt því línuriti sem ráðherrann sýndi í kringum þetta ártal þarna rétt fyrir aldamótin gekk sjávarútvegurinn ágætlega. Síðan komu brekkur sem voru upp á við í sjávarútveginum árin 2002, 2003, 2004 og 2005, gengið hátt og gerði greininni erfitt fyrir. Nú gengur ágætlega í sjávarútveginum aftur og ég fæ ekki betur séð en sömu rök eigi við í dag og áttu þá við hjá hæstv. ráðherra er þá var þingmaður.

Rétt er að minna á það aftur og aftur að þeir sérfræðingar sem atvinnuveganefnd kallaði til sín til að fjalla um málið og fara yfir það eru enn á því að veiðigjaldið sé allt of hátt til að fyrirtækin geti staðið undir þeim. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni og þarf í raun að leita skýringa á því hvers vegna stjórnarmeirihlutinn hlustar ekki á þetta, hvers vegna stjórnarmeirihlutinn æðir samt áfram með málið þó svo að sérfræðingarnir sem voru kallaðir til, meðal annars af hálfu meiri hlutans, segi að þetta sé einfaldlega enn of hátt veiðigjald. Hvers vegna er ekki staldrað við? Hvers vegna er haldið áfram? Það er ætt áfram með bundið fyrir augun og engu virðist skipta hver áhrifin verða. Það má líkja stjórnarmeirihlutanum við fíl í postulínsbúð sem tekur ekki mark á neinu eða tillit til neins sem er í kringum sig, brýtur allt og bramlar. Það er verulega mikilvægt, frú forseti, að kalla eftir svörum við því hvers vegna ekki er tekið tillit til þess sem sérfræðingarnir segja.

Ég vil enn og aftur minna á að tugir þúsunda Íslendinga hafa beina eða óbeina afkomu af sjávarútvegi, talað er um að það geti verið allt að því 35 þús. manns sem eru í hinum svokallaða sjávarklasa. Við þekkjum það mörg sem erum frá litlum sjávarplássum eða þekkjum þar til hve miklu atvinnugreinin skiptir. Jafnvel þegar horft er á allt aðrar atvinnugreinar, eins og trésmíði eða vélvirkjun, verslun og þjónustu, bakarí, allt hangir þetta á þessari atvinnugrein í þeim litlu þorpum og bæjum. Ábyrgð þeirra sem ætla að ana áfram með bundið fyrir augun í þessu máli er alveg gríðarlega mikil. Halda mætti að þeir hinir sömu séu að hugsa sér eitthvert starf erlendis þegar þessu er lokið, ég verð bara að segja það.

Við verðum líka að hafa í huga að fjölmargir þeirra sem munu verða fyrir barðinu á þessu frumvarpi hafa ekki gert neitt annað en að starfa innan þess lagaramma sem Alþingi hefur sett frá því að kvótakerfinu var komið á. Þetta eru einstaklingar sem hafa keypt aflaheimildir, enda hafa aflaheimildir skipt um hendur í mjög miklum mæli á þeim tíma, ætli það eigi ekki við um 80—90% aflaheimilda. Það er ekki rétt að láta þessa aðila sitja uppi með ónýtt fyrirtæki eftir að hafa lagt mikið á sig til að reyna að skapa atvinnu og velferð í samfélaginu.

Þrátt fyrir frasana og slagorðin sem samfylkingarþingmenn viðhafa stöðugt úr þessum ræðustól og úti í samfélaginu er það nú einu sinni þannig að það er sjávarútvegurinn sem heldur uppi íslensku samfélagi ásamt iðnaðinum, það eru þessar tvær atvinnugreinar. Svo kemur ferðaþjónustan. Það er ekkert flóknara en það að það eru þær greinar fyrst og fremst sem halda uppi samfélaginu. Færa má fyrir því rök að það eru þessar atvinnugreinar sem halda uppi þeim fjölda opinberra starfa sem til eru á höfuðborgarsvæðinu. Það eru þessi störf sem að miklu leyti kosta menningu og listir á Íslandi. Afrakstur þeirra greina fer til samfélagsins með einum eða öðrum hætti.

Frú forseti. Það er mikilvægt að heildarmyndin sé skoðuð. Ekki er hægt að hleypa mönnum áfram í algjörri blindni, það verður að kalla eftir skýringum. Þá þurfa stjórnarþingmenn, og þeir sem bera ábyrgð á málinu, að vera hér, koma í pontu, gera grein fyrir málinu og svara þeim spurningum sem til þeirra er beint. Því miður hefur verulega skort á það.

Það er alveg ljóst að þeir 15 milljarðar sem ætlaðir eru í veiðigjald munu setja mörg fyrirtæki á hausinn. Jafnvel þó að einhverjir plástrar felist í breytingartillögum meiri hlutans er alveg ljóst að áhrifin verða mikil. Það eru þessi áhrif sem við erum að reyna að benda á, reyna að opna augu stjórnarmeirihlutans fyrir þeim og reyna að fá þá til að taka mark á gagnrýni okkar og þeirra sérfræðinga sem hafa skilað inn gagnrýni.