140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:17]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði í ræðu sinni, og vil víkja nokkrum spurningum til hans. Er í rauninni ekki sorglegt að í þeim tillögum sem liggja fyrir í fiskveiðistjórnarmálum er aldrei getið um það að Íslendingar sem fiskveiðiþjóð eigi elsta fiskveiðiflota í heimi? Það er löngu tímabært að endurnýja verulegan hluta flotans. Til að mynda eiga Írar, Norðmenn og Færeyingar miklu yngri og fullkomnari fiskiskipaflota en Íslendingar. Að mörgu leyti eru tækninýjungar í íslenskum skipum sex til tíu árum á eftir Norðmönnum. Til þessa á auðvitað að taka tillit þegar menn þurfa að hafa borð fyrir báru í afkomu til þess að endurnýja og byggja upp. Það er ekki hægt að láta fúna fótviðina og sleppa því að halda hlutunum við. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þetta.

Einnig að drifkrafturinn sem þarf að vera í sjávarútvegi og því sem skapar grunninn fyrir okkar velferðarsamfélag, þarf að hafa hvatningu og hvatningin er möguleiki til þess að gera vel, byggja vel, gera vel fyrir sitt fólk og þá atvinnuuppbyggingu sem á sér stað úti um allt land og er í raun fjöregg þjóðarinnar.