140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum með einhvern elsta skipaflota í heimi, það er alveg rétt, og það er að mörgu leyti áhyggjuefni. Það er jafnframt ljóst að nái þessi frumvörp fram að ganga, þetta veiðigjaldafrumvarp ekki síst, mun hægja mjög á endurnýjun skipaflotans. Það kom ágætlega fram í orðum framkvæmdastjóra Brims í gær á fundi hjá því ágæta fyrirtæki hvernig menn mundu stilla sig af, nota gömlu skipin áfram og reyna að nota þau eins mikið og hægt er því það er einfaldlega hagkvæmara þegar litið er á heildarmyndina.

Ég veit ekki, frú forseti, hvort ég er að fara með rétt mál, en ef ég man rétt var hið glæsilega skip Heimaey sem nýlega kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum, pantað fyrir nokkuð mörgum árum, fyrir hrun jafnvel eða á hrunárunum. Ég held að það megi fullyrða að þeir aðilar væru varla að panta slíkt skip í dag í þeirri óvissu sem fram undan er. En auðvitað eru útgerðarmenn og þeir sem starfa við sjóinn harðduglegt fólk og sjá kannski leiðir sem við sjáum ekki þó að hart sé í ári. Það er alveg ljóst að þau frumvörp sem hér liggja frammi, sérstaklega um veiðigjaldið, munu hafa veruleg áhrif á getu fyrirtækjanna til þess að fjárfesta. Fyrirtækin eru ekki bara að fjárfesta í nýjum skipum, þau eru að sjálfsögðu að fjárfesta í alls konar nýsköpun, þau taka þátt með nýsköpunarfyrirtækjunum á Íslandi að þróa vinnslulínur, þróa betri tækni til að nýta hráefnið betur, vinna prótein úr hráefninu svo dæmi sé tekið. Fyrirtækin leggja í miklum mæli fram fjármuni og skaffa aðstöðu til að hægt sé að starfa að slíkum verkefnum, nýsköpun og þróun. Það hefur meðal annars verið fullyrt við þann er hér stendur að sæmilegur frystitogari gæti hugsanlega framleitt bíódísil um borð í skipum (Forseti hringir.) sem mundi duga skipunum til þriggja, fjögurra daga, bara með því að nýta það sem annars færi í sjóinn.