140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu og fylgja aðeins eftir spurningunni sem hv. þm. Árni Johnsen fór af stað með áðan um hina uppsöfnuðu fjárfestingarþörf sem er í greininni. Við vitum að sjávarútvegurinn hefur fjárfest mjög lítið vegna þeirrar miklu óvissu sem hefur verið í greininni núna á síðustu þremur árum. Það er talið að uppsöfnuð fjárfestingarþörf nemi tugum milljarða, sennilega allt að 60 milljörðum kr. Við hljótum að gera okkur grein fyrir því hversu mikilvæg þessi þörf er fyrir íslenskt atvinnulíf og efnahagslíf, hversu mikil atvinnusköpun og fjárfesting getur orðið í kringum þetta og það mun auðvitað skila gríðarlega miklum skatttekjum í þjóðarbúið, launasköttum og virðisaukaskatti og öllu því sem fylgir slíkum stórframkvæmdum sem eru í raun í pípunum fái sjávarútvegurinn búið við eðlileg rekstrarskilyrði.

Mig langar aðeins að velta því upp við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson hvort líklegt sé að þessi háa gjaldtaka með svokölluðum veiðiskatti á þessa grein, muni skila sér ef við lítum á heildarmyndina. Er ekki stór hætta á því að við verðum af gríðarlegum skatttekjum annars staðar og náttúrlega allri þeirri atvinnusköpun og verðmætasköpun sem verður í kringum það að endurnýja í sjávarútvegi, skapa aukna tækni o.s.frv.? Er þetta ekki nánast sú aðferð sem stundum er líkt við það að pissa í skóinn sinn?