140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:10]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög greinargóða ræðu. Ég verð að segja það strax að það eru stórundarleg vinnubrögð af hálfu hæstv. sjávarútvegsráðherra að koma hingað með mál án þess að menn geti sagt með vissu hvaða veiðigjöldum það skili. Að það skuli virkilega vera hagsmunaaðilar sem eru að reikna út hverjar afleiðingar frumvarpsins verði í stað þess að það hafi verið gert fyrir fram.

Mig langar að spyrja virðulegan þingmann að því hvort það hafi verið rætt í nefnd á þeim stutta tíma sem hún fékk til að skoða þetta mál hvers vegna ráðuneytið var ekki búið að kynna sér það út í hörgul hvaða afleiðingar þessi lagasetning hefði fyrir útgerð og sjávarútveg í landinu.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í þá nefnd sem á að skoða grundvöll veiðigjaldsins. Ég heyrði hv. þm. Helga Hjörvar segja að í ráðuneytinu hefði verið sérstök undirbúningsnefnd sem skoðaði aðdraganda þessa máls. Það kemur reyndar ekki fram í gögnum hverjir voru í þeirri nefnd en það hefur verið upplýst að þar voru Indriði Þorláksson, Helgi Hjörvar og einhver einn embættismaður en enginn lögfræðingur. Nú liggur fyrir í málinu harkaleg gagnrýni af hálfu ýmissa lögfræðinga, ég get nefnt Bonafide, Lex og fleiri lögmannsstofur, á þessa nefnd og það valdaframsal sem í henni felst.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort menn hafi skoðað það sérstaklega í nefndinni að í áliti meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er þessari gagnrýni nánast ýtt út af borðinu. Menn segja bara að ekkert þurfi að takast á við hana. Mig langar að spyrja hv. þingmann nánar út í þetta. Ég tel að það sé stórmál að hér eigi að fara að samþykkja lagasetningu þar sem ágreiningur og veruleg áhöld eru um hvort í felist of mikið valdaframsal, að hreinlega sé verið að brjóta gegn (Forseti hringir.) ákvæðum stjórnarskrár.