140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að það er mjög sérkennilegt að ráðuneytið og ráðherra væru ekki með greinarbetri gögn. Meiri hluti atvinnuveganefndar fékk sérfræðinga til að fara yfir málið og þeir sýndu fram á mjög alvarlegar afleiðingar af þessu ráðslagi og samspili þessara tveggja frumvarpa. Þegar allt er síðan tekið saman og breytingartillögurnar teknar inn standa þeir við þá niðurstöðu að þetta hafi gríðarleg áhrif og muni verða þó nokkrum fyrirtækjum ofviða.

Ég náði því miður ekki að fara yfir frumvarpið og nokkur atriði í því sem ég ætlaði að fjalla um, ég geri það bara í seinni ræðu. Eitt af því er til að mynda veiðigjaldsnefndin sem fékk síðan í breytingartillögum mun fleiri verkefni. Meiri hlutinn viðurkenndi bara að sú vinna sem lögð hefði verið í þetta og niðurstaðan væri ómöguleg. Nefndin á í raun að fara yfir málið frá grunni.

Hugsanlega verður það niðurstaða veiðigjaldsnefndarinnar að þessi aðferðafræði, eins og við höfum bent á í minni hlutanum, sé ómöguleg og allt önnur leið verði farin. Mér finnst það satt best að segja ekki ólíkleg niðurstaða. Þar með viðurkennir meiri hlutinn kannski að best væri að setja það í breytingartillögu að færa öll þessi verkefni til veiðigjaldsnefndarinnar.

Varðandi þau atriði sem þingmaðurinn bendir réttilega á, og komu til tals hjá þó nokkrum lögfræðiskrifstofum, að gætu varðað við ákvæði stjórnarskrár þá er það líka ámælisvert að ekki hafi verið búið að fara yfir það og því síðan svarað svo skýrt að ekki þurfi að fjalla um það meir. Ég held að hægt sé (Forseti hringir.) að segja það hreint út að svona stórar og viðamiklar breytingar (Forseti hringir.) geta ekki komið inn á síðustu dögum þings og fengið nægilega góða umfjöllun (Forseti hringir.) og síðan afgreiðslu án þess að menn leggist yfir þær.