140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður veltir auðvitað fyrir sér ábyrgð þingsins þegar mál af þessum toga koma inn svo vanbúin. Auðvitað er eina vitið að hæstv. forseti þingsins stöðvi umræðu um þetta mál. Það er fráleitt að verið sé að ræða mál þegar verulegar líkur eru á því og menn hafa rökstutt það með skýrum hætti að verið sé fara gegn ákvæðum stjórnarskrár.

Ég hef kynnt mér þessar breytingartillögur og mér sýnist að með því að færa enn frekari verkefni til þessara veiðigjaldsnefndar sé meiri hluti hv. atvinnuveganefndar að gefast upp á þessu furðulega máli.

Ég tel einboðið að hv. atvinnuveganefnd taki þetta mál inn í lok þessarar umræðu, hvenær sem það verður, og fari skilmerkilega yfir það hvort virkilega sé vilji meiri hlutans að ganga þannig fram að vegið sé að stjórnskipun landsins. Ég hygg að minni hlutinn verði að leggja sig fram um koma meiri hlutanum í skilning um að svona er ekki hægt að vinna.