140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög greinargóða ræðu.

Ég held að við notum rangt hugtak þegar við fjöllum um þetta frumvarp. Í heiti frumvarpsins er talað um veiðigjöld en það er augljóst að ekki er um gjöld að ræða í þeim skilningi laganna heldur skatta. Ég held við ættum að nefna hlutina sínu rétta nafni og auðvitað hefði meiri hlutinn átt að leggja fram breytingartillögu sem fól í sér að breyta heiti frumvarpsins. Það er ótvírætt að um er að ræða skatt en ekki gjald. Það er eingöngu verið að klæða þetta í einhvern felubúning. Það hljómar sennilega eitthvað betur að kalla þetta veiðigjöld en veiðiskatt en það er rangnefni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að öðru atriði sem hann gerði að umtalsefni og ég tel að skipti miklu máli. Það eru þær umræður sem farið hafa fram um framlegðina í sjávarútveginum. Menn hafa verið að vísa til þess að á árinu 2011 gæti framlegðin í sjávarútveginum mögulega numið 75 milljörðum króna. Svo segja menn að 15 milljarðar af því sé ekki upp í nös á ketti og þess vegna ráði sjávarútvegurinn auðveldlega við það. Í fyrsta lagi þarf að gera þá athugasemd að við erum ekki að tala um 75 milljarða framlegð útgerðarinnar, það er útgerðin sem á að borga þetta, ekki fiskvinnslan. Ríkisstjórnin býr sér til sérstaka Krýsuvíkurleið að því að ná í einhvern hagnað úr fiskvinnslunni en það er eftir sem áður útgerðin sem þarf að borga þetta.

Er ekki ljóst, að mati hv. þingmanns, að þetta muni bitna harðar á einstaklingsútgerðum sem eru ekki með fiskvinnslu? Það eru mjög margar slíkar útgerðir, t.d. í kjördæmi hv. þingmanns, Vestmannaeyjum. Hefur hv. þingmaður áttað sig á því með hvaða hætti þetta muni bitna á slíkum útgerðum?

Menn eru líka alltaf að tala um þessa háu framlegð út frá einu ári, sem er talið eitt besta árið í sögu sjávarútvegsins á undanförnum árum, en ræða ekki um það að framlegðin hefur verið mjög breytileg og í mörg ár miklu minni og að þær kröfur sem verið er að setja með þessu veiðigjaldi mundu setja sjávarútveginn á hliðina í slíku árferði.