140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það að þegar í ljós komu allir ágallarnir á aðferðafræðinni sem lögð er til í frumvarpinu hefði hreinlega verið skynsamlegast að leggja það til hliðar og hefja leiðina á einhverjum öðrum punkti. Í raun gerir meiri hlutinn það að því leyti að vísa verkefnunum til veiðigjaldsnefndarinnar og leggja til bráðabirgðaákvæði um fasta krónutölu á næsta ári og svo taki aðferðafræðin við einhvern tímann seinna. Í staðinn hefði mátt koma með lítið frumvarp um álögð veiðigjöld á næsta ári í ákveðinni krónutölu og skipa síðan nefnd til að útfæra þessa leið. Það í raun og veru niðurstaðan.

Það er svolítið flókið, kjánalegt og sérkennilegt og mun hugsanlega hafa ýmis lögfræðileg áhrif, eins og hér hefur komið fram, að fara þá leið sem meiri hlutinn fer í stað þess að viðurkenna að þetta hafi verið ómögulegt. Það mætti þess vegna gefa þessu tvö ár, setja á fasta krónutölu (Forseti hringir.) til lengri tíma. Ég veit að útgerðin er (Forseti hringir.) tilbúin að greiða ákveðið gjald, hærra gjald, til að standa undir kostnaðinum við hrunið, en ekki til að koma á einhverju kerfi sem enginn getur (Forseti hringir.) séð fyrir hvernig endar í framtíðinni.