140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Sumir sem stíga í ræðustól Alþingis tala eins og þeir séu einu fulltrúar almennings í landinu. Því marki finnst mér þessi umræða brennd. Þeir telja sig búa yfir þeirri vitneskju að þeir geti metið það svo að hér séu almannahagsmunir í húfi og óréttlátt sé að ganga ekki þeirra erinda.

Alþýðusamband Íslands er málsvari mjög margra fulltrúa almennings í landinu. Sveitarfélögin í landinu eru fulltrúar alls almennings í landinu. Þegar þessir aðilar eru sammála um að hér sé gengið of bratt, allt of langt og að afkoma verði óviss er augljóst að ekki er verið að ganga erinda almennings.

Hvað varðar réttlætið sem hv. þingmaður kom líka inn á held ég að ekkert það fyrirtæki eða útgerðarflokkur sem gæti orðið gjaldþrota vegna þessara aðgerða ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) mundi telja að sérstakt réttlæti væri fólgið í því.