140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Borið hefur á því í þessari umræðu um sjávarútvegsmál, og er svo sem ekki alveg nýtt af nálinni, að sumir hafa tilhneigingu til að stilla málum þannig upp að annars vegar séu handhafar réttlætisins og vörslumenn almannahagsmuna og hins vegar hinir sem beri fram óréttlætið og séu talsmenn sérhagsmuna. Sérhagsmunirnir eru þá í því sambandi hagsmunir íslensks sjávarútvegs en ég hefði haldið að almennt talað hljóti hagsmunir undirstöðuatvinnugreinarinnar og hagsmunir þjóðarinnar að fara saman. Eða vegnar okkur ekki betur þegar vel gengur í sjávarútveginum og verr þegar illa gengur í sjávarútveginum? Er það ekki nokkurn veginn ljóst?

Ef við værum með lakari framlegð í sjávarútvegi, hún væri ekki 75 milljarðar eins og okkur er sagt að hún hafi orðið á síðasta ári heldur kannski 35 eða 45 milljarðar, væri staðan verri og möguleikar fyrirtækjanna til að greiða skatta, ekki bara auðlindaskattinn nýja heldur líka aðra skatta, minni. Yrði það ekki líka þess valdandi að möguleikar fyrirtækjanna til að hækka laun starfsfólks mundu minnka og yrðu möguleikar fyrirtækjanna til að kaupa rekstrarvörur af fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn ekki líka minni?

Er ekki alveg ljóst, getum við að minnsta kosti ekki orðið sammála um það, að það teljist almannahagsmunir að sjávarútveginum vegni vel? Viðfangsefnið sé síðan að velta því fyrir sér hvernig við eigum að skattleggja þessa grein. Það er ekki markmið í sjálfu sér að hækka skatta, markmiðið hlýtur að vera að skattstofninn stækki með betri árangri fyrirtækjanna þannig að afraksturinn skili sér þannig út í samfélagið.

Það hefur gengið fram af mér að hlusta á þessa umræðu sem svo mjög hefur gengið út á það að hinir grimmu sérhagsmunaaðilar, bæði í pólitíkinni og í atvinnulífinu, séu að verja sitt vígi og vilji ekki á neinn hátt koma til móts við samfélagið með því að taka þátt í þeirri samfélagslegu uppbyggingu sem á sér stað í gegnum ríkissjóð. Ég ætla að fullyrða að þetta er mjög rangt.

Ef við veltum sjávarútveginum fyrir okkur og hyggjum að því hvernig hann hefur í gegnum tíðina komið til móts við samfélagsleg verkefni í heimabyggðum sínum þá er þar um að ræða ótölulegar upphæðir. Þátttaka í menningarlífi, velferðarmálum af ýmsum toga, framfaramál í heimabyggð — öllu þessu hefur sjávarútvegurinn tekið virkan þátt í.

Mjög er kallað eftir því gagnvart ýmsum sjávarútvegsfyrirtækjum að þau komi að frekari atvinnuuppbyggingu utan sinnar kjarnastarfsemi, t.d. í nærsamfélagi sínu. Við þekkjum það að fyrirtæki hafa í gegnum tíðina verið að leggja fram hlutafé og styrki til slíkrar uppbyggingar, auðvitað í mismiklum mæli, og það hefur skipt miklu máli.

Ég nefni þetta líka í því sambandi að nú er það gert mjög tortryggilegt að sjávarútvegurinn hafi verið að fjárfesta utan sinnar kjarnastarfsemi, að sjávarútvegsfyrirtæki hafi til dæmis fjárfest í öðru en því sem lýtur að útgerð eða fiskvinnslu og síðan segja menn: Þetta sýnir að sjávarútvegurinn hefur verið að taka þátt í viðurhlutamiklu braski. En það er ekki þannig.

Við þekkjum auðvitað dæmi um að sjávarútvegsfyrirtæki og menn í sjávarútvegi hafa kannski fjárfest og tekið mikla áhættu en það gera menn svo sem alltaf í atvinnurekstri í sjálfu sér, atvinnurekstur er í eðli sínu áhættustarfsemi og ekkert rangt við það. Menn fara stundum flatt á því og ýmsir fóru flatt í hruninu mikla sem varð haustið 2008 þegar verðmæti í hlutabréfum og skuldabréfum töpuðust. Það átti ekkert sérstaklega við um sjávarútveginn en það átti auðvitað líka við um einstaklinga og fyrirtæki í þeirri grein sem sitja þá eftir með sárt ennið og verða að axla þær skuldbindingar.

Þegar við skoðum þetta, og það hefur verið gert af fræðimönnum og af fjármálastofnunum, þá blasir engu að síður við að mjög lítill hluti af fjárskuldbindingum sjávarútvegsins, skuldum sjávarútvegsins, er vegna starfsemi utan kjarnastarfsemi hans. Þegar það er síðan brotið niður og skoðað betur, og það er auðvelt að gera það fyrirtæki fyrir fyrirtæki og fá einhverja heildarmynd, sjá menn að þessi fjárfesting hefur ekki síst verið í nærumhverfinu. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa til dæmis fjárfest í netagerðum, í óskyldum rekstri í nærumhverfi sínu og síðan hafa fyrirtæki auðvitað líka fjárfest utan þessa hefðbundna rekstrar á ýmsan hátt.

Það er ekkert rangt við það, það er ekkert sem menn eiga að gagnrýna, öðru nær. Ég hefði einmitt talið það gagnrýnisvert ef sjávarútvegurinn hefði ekki komið að því að fjárfesta annars staðar í atvinnulífinu af ýmsum ástæðum. Okkur þætti ekki gott í rauninni að hið mikla afl sem býr í sjávarútveginum nýttist ekki einmitt til atvinnuuppbyggingar á öðrum sviðum, ekki síst úti á landsbyggðinni þar sem við köllum eftir því á degi hverjum að reyna að auka fjölbreytni atvinnulífsins af því að við vitum að þó sjávarútvegurinn sé góðra gjalda verður og skipti öllu máli þá köllum við líka eftir aukinni fjölbreytni og við finnum að sjávarútvegurinn einn og sér er ekki sú viðspyrna sem við þurfum í byggðunum. Þó að hann sé vissulega forsendan þá er hann ekki nægileg viðspyrna og við þurfum á því að halda að sjávarútvegurinn taki þátt í því að fjárfesta í atvinnulífinu utan kjarnastarfsemi sinnar.

Gleymum því svo heldur ekki að sjávarútvegurinn var mjög lengi í þeirri stöðu að þurfa að kalla eftir auknu fjármagni. Fyrir 20 til 30 árum voru til dæmis settir á sérstakir sjóðir til að auðvelda greininni lífið. Þá voru miklir erfiðleikar, t.d. í lok níunda áratugarins, og settir á mjög umdeildir sjóðir af hálfu ríkisins sem voru sérstaklega fjármagnaðir til að leggja greininni lið. Á þeim tíma gerðist það líka að mörg þjónustufyrirtæki við sjávarútveginn, sem þá bjuggu við betri afkomu, fjárfestu í sjávarútveginum. Við þekkjum fjöldamörg dæmi um það og sjáum jafnvel enn í efnahagsreikningum einstakra sjávarútvegsfyrirtækja leifar af þessu, þegar olíufélögin, tryggingafélögin, skipafélögin og fleiri slíkir aðilar fjárfestu fyrir milljónatugi á þeim tíma í einstökum fyrirtækjum af því að þessir þjónustuaðilar vildu verja hagsmuni sína, sáu að reksturinn var eins góður og hann gat í sjálfu sér orðið, eða að minnsta kosti viðunandi miðað við þær aðstæður sem menn bjuggu við þá, og töldu hagsmunum sínum best borgið með því að reyna að styrkja eiginfjárgrunn fyrirtækjanna með því að eignast þar hlutabréf.

Við sjáum að það er hluti af viðskiptalífi okkar að fyrirtæki fjárfesti utan kjarnastarfsemi sinnar og það er ekkert óeðlilegt, öðru nær. Hægt er að færa fyrir því rök að fjárfestingar utan kjarnastarfsemi sjávarútvegsins kunni að vera hluti af því að dreifa áhættu, það er aldrei gott að hafa öll sín egg í sömu körfu eins og orðatiltækið segir og ég held að flestir viðurkenni nú. Það kann líka að vera skynsamlegt af þeim ástæðum, fyrir eigendur fyrirtækjanna og fyrirtækin sjálf, að reyna að búa til breiðari eiginfjárgrunn með fjárfestingum utan greinarinnar.

Mig langar aðeins að rifja þetta upp vegna þess að mér finnst að í þessari umræðu gangi aftur svo gríðarlegar bábiljur sem síðan eru allar lagðar út á verri veg og sagt sem svo: Skuldastaða sjávarútvegsins er óviðunandi, sjávarútvegurinn er í skuldadýi, hann ræður ekki við að borga nægilega hátt veiðigjald vegna þess að þar hafa menn verið að fjárfesta eins og kjánar, út og suður og ekkert í því sem þeir kunna best. Það er rangt. Fjárfesting sjávarútvegsins hefur aðallega verið í sjávarútveginum sjálfum, það sýna allar tölur. Hann hefur síðan fjárfest utan greinarinnar í einhverjum mæli og það er eðlilegt. Af því er langalgengast að menn séu að fjárfesta í nærumhverfi sínu og það er í sjálfu sér bara gott. Þessi umræða um sjávarútveginn hefur verið ákaflega ósanngjörn, menn tala með öðrum hætti um þá grein en allar aðrar atvinnugreinar þegar fjallað er um stöðu þeirra.

Ég vil einnig gera það umtalsefni að menn hafa kallað frumvarpið sem við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjöld og það er sannarlega heiti frumvarpsins. En það er mjög rangt. Því miður hefur þessi ranga hugtakanotkun smitast mjög í gegnum umræðuna, menn eru að tala um veiðigjöld og auðlindagjöld o.s.frv. en þegar betur að skoðað þá er þetta hvorugt. Það er ljóst að sá skattstofn sem menn byggja þetta á er ekki neinn raunverulegur rentustofn, þess vegna er þessi skattur ekki auðlindaskattur í sjálfu sér. Auðlindagjöld eða rentuskattur er mjög vandmeðfarið fyrirbrigði, það hefur verið viðfangsefni sérfræðinga á þessu sviði út um allan heim að reyna að skilgreina slíka rentu. Menn hafa þurft að leggja í mikla tæknilega vinnu við að skilgreina þetta rentugjald og það er alls ekkert áhlaupsverk eins og allir vita.

Þegar menn ákveða því, eins og nú er verið að gera, að stórauka þann skatt sem innheimtur hefur verið sérstaklega af sjávarútveginum þurfa þeir auðvitað mjög að vanda sig. Þessi vinna fór fram í svokallaðri auðlindanefnd sem vann um síðustu aldamót og skilaði tímamótaskýrslu sem ég fullyrði að hefur orðið grunnurinn að þeirri hugsun að rök væru fyrir því að innheimta sérstök gjöld af fyrirtækjum sem væru að nýta náttúruauðlindir. Fyrir því eru færð þar tiltekin rök en þar var hins vegar lagt af stað með aðferðafræði sem allir viðurkenndu á þeim tíma að hlyti að leiða til skattlagningar sem yrði að vera mjög hófleg vegna þess að ef hún ykist mjög mikið yrðu áhrifin mjög ýkt og gætu komið fram með mjög sérkennilegum hætti. Þessi ýktu áhrif eru til staðar í því fyrirkomulagi sem við höfum búið við síðasta áratuginn með innheimtu veiðigjalda en þessi áhrif verða hins vegar mjög ýkt þegar gjaldið er síðan hækkað.

Eitt af því sem við hljótum að gagnrýna mjög harðlega er hvernig staðið hefur verið að öllum undirbúningi málsins. Eðlilegast hefði verið, úr því að menn ætluðu að reyna að freista þess að ná meiri peningum út úr sjávarútveginum, út á það gengur frumvarpið, að reyna að nýta sér þá miklu fræðilegu þekkingu sem er til staðar, meðal annars góðu heilli hér á Íslandi, við að undirbúa þetta mál. Það hefur til dæmis komið fram í greinargerðum manna eins og Ragnars Árnasonar, prófessors í auðlindahagfræði, að auðlindarentan sem hugtak er mjög vandfundin og menn þurfa þess vegna að vanda sig mjög mikið þegar verið er að reyna að búa til eitthvert slíkt hugtak, einhvern stofn, sem á síðan að innheimta skattana af. Ef það er ekki gert er hættan sú, eins og við höfum séð birtast í þessu frumvarpi, að afleiðingarnar verði svona gríðarlega ýktar.

Af minni miklu reynslu á þingi þá man ég satt að segja ekki eftir því að komið hafi frumvarp, að minnsta kosti ekki af þessari stærðargráðu, sem var svo hrikalega illa undirbúið að því leyti að það virtist vera byggt á algjörri bábilju, algjörum misskilningi. Síðan er þetta allt leitt fram í frumvarpinu og þegar það er lesið bókstaflega og reynt að reikna út á grundvelli þess verður niðurstaðan út úr öllu korti.

Ég tek sem dæmi skýrslu sem oft hefur verið vitnað til, sem þeir Stefán B. Gunnlaugsson við Háskólann á Akureyri og Daði Már Kristófersson við Háskóla Íslands unnu að beiðni atvinnuveganefndar. Hvað leiddi hún í ljós? Þegar menn fóru að skoða frumvarpið og lesa frumvarpstextann sjálfan alveg bókstaflega — og það verða menn auðvitað að gera, skattar sem grundvallast alltaf á lögum eru auðvitað ekki lagðir á á grundvelli athugasemda við frumvarpið, þeir eru ekki lagðir á á grundvelli orða hæstv. ráðherra eða á grundvelli umræðunnar sem fer fram í þinginu. Þeir eru lagðir á á grundvelli frumvarpstextans sem þá er orðinn að lögum. Og þegar farið var að lesa þennan frumvarpstexta nákvæmlega kom í ljós að þessi veiðigjöld voru alls ekkert í samræmi við það sem athugasemdir frumvarpstextans gengu út á.

Í athugasemdum frumvarpstextans og í töflu sem fylgir honum kemur fram að ef árið 2010 væri lagt til grundvallar — og menn höfðu öll gögn um það hvernig árið 2010 leit út, bæði um aflamagnið og afkomu fyrirtækjanna og annað sem þurfti til til að leggja skattinn á — var niðurstaðan sú að þetta gæfi um það bil 24 til 25 milljarða, þ.e. bæði almenna gjaldið og líka sérstaka gjaldið sem er að einhverju leyti afkomutengt. Talan var 24 eða 25 milljarðar sem menn gátu lagt til grundvallar, hún yrði eitthvað breytileg milli ára eftir því sem aflamagnið þróast, hækkar og lækkar eftir því sem afkoman er, fer eftir gengisþróuninni o.s.frv.

Þegar menn fóru hins vegar að lesa frumvarpstextann sjálfan, eins og verður að gera þegar menn eru að reyna að reikna út hin raunverulegu áhrif, kom allt annað í ljós. Þá kom í ljós, sem mér finnst vera mjög hrollvekjandi, að þessi skattur, miðað við þær forsendur sem lagt var upp með í frumvarpinu, átti ekki að nema 24 milljörðum og ekki 25 milljörðum heldur hefði hann þýtt að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldinu miðað við óbreyttar veiðar hefðu orðið 50 milljarðar. Þetta er auðvitað svo galið að það tekur engu tali.

Menn hafa hreykt sér af því að sjávarútvegurinn sé nú farinn að skila 75 milljarða framlegð. Þá hefðu 50 milljarðar af 75 milljörðum, sem er framlegðin, verið teknir út úr greininni til að láta í hendur ríkissjóðs. Það sjá allir að það hefði aldrei gengið upp. Jafnvel bestu fyrirtækin okkar hefðu ekkert ráðið við þetta. Smám saman hefði það gengið svo nærri þeim að það hefði riðið þeim að fullu, jafnvel þeim bestu sem skulduðu minnst.

Þegar atvinnuveganefnd hafði kallað til sín sérfræðinga til að skoða þessi mál féllust þeim hendur. Þeir eiginlega réttu upp hendurnar í uppgjöf og sögðu: Það þýðir ekkert að reyna að reikna þetta. Þeim var ljóst að ekki nokkurt einasta fyrirtæki á Íslandi stæðist það áhlaup ríkisstjórnarinnar sem felst í þessari gjaldtöku eins og það var skrifað inn í frumvarpstextann sjálfan. Þetta var með öðrum orðum fúsk, þetta voru engin vinnubrögð, þetta var ekki nægilega vel undirbúið: Það sannar það sem okkar helstu sérfræðingar á þessu sviði hafa sagt að auðlindarentan er mjög vandfundin, menn þurfa að vanda sig mjög mikið áður en þeir komast til botns í því hver hún er. Menn þurfa því að vinna þetta almennilega með mestu kunnáttumönnum okkar á þessu sviði. Þannig hafa menn almennt unnið þegar vandasöm lagasetning er undirbúin. Við munum til dæmis að í ýmsum þáttum sem lutu að málasviði dómsmálaráðuneytisins gamla, nú innanríkisráðuneytisins, voru kallaðir til fræðimenn úr Háskóla Íslands, jafnvel hæstaréttardómarar og aðrir. Þeir hafa búið til ramma sem er frumvarp sem síðan er lagt fyrir Alþingi þó að það sé auðvitað hin pólitíska ákvörðun sem ræður niðurstöðunni að lokum. En menn hafa að minnsta kosti reynt að undirbúa málið fræðilega eins vel og þeir hafa framast getað og þannig hefur málið komið inn í þingið, menn rætt þessi mál og komist að einhverri niðurstöðu.

Þessu er því miður ekki til að dreifa þegar kemur að því máli sem við ræðum hér. Þá eru bara settir til verka einstaklingar, hinir mætustu einstaklingar sem ég ætla ekki að varpa neinni rýrð á. En þarna hefur mönnum skjöplast allsvakalega eins og ég rakti áðan og niðurstaðan er þessi. Nú hefur það verið upplýst, hv. þm. Helgi Hjörvar greindi frá því í umræðu á föstudaginn var, að þeir sem unnu að undirbúningi málsins, voru hinir tæknilegu undirbúningsmenn, sérfræðingarnir sem kallaðir voru til, voru Indriði Þorláksson, sem við vitum að þekkir vel til í skattalegu umhverfi en hefur ekki sérhæft sig á þessu sviði, síðan var mætur embættismaður úr stjórnsýslunni sem ég veit ekki hver var og að lokum hv. þm. Helgi Hjörvar, sem hefur ýmislegt til brunns að bera en er ekki sérfræðingur á þessu sviði.

Afraksturinn að öllu þessu verki þremenninganna var þetta frumvarp sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ber alla pólitíska ábyrgð á. Ekki er hægt að vísa henni á þá þrjá einstaklinga sem unnu að málinu því að hin pólitíska ábyrgð í þessu máli hvílir á herðum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ríkisstjórnarinnar og raunar ríkisstjórnarflokkanna sem lögðu málið svona fram. Þeim var öllum kunnugt um það, bæði ráðherranum og þingmönnum sem standa að þessu, hvernig staðið var að undirbúningnum en þeir létu frumvarpið samt sem áður fara inn í Alþingi þar sem við ræðum það nú.

Þegar málin skýrðust smám saman í starfi hv. atvinnuveganefndar kallaði nefndin til sín allmarga sérfræðinga. Við fengum líka til liðs við okkur fjölmarga sem veittu nefndinni álit sitt. Þar voru lögfræðingar og endurskoðendur, þar voru sveitarfélög, verkalýðsfélög og útgerðarfélög. Og mig rekur satt best að segja ekki minni til þess að hafa fengið með einu máli eins mikið af vönduðum umsögnum eins og gerðist í þessu máli. Þarna höfðu menn greinilega lagt gríðarlega mikla vinnu í þetta. Menn tóku hlutverk sitt mjög alvarlega, settu fram vandaðar álitsgerðir frá lögfræðistofum og frá endurskoðunarskrifstofum, frá alls konar sérfræðingum, fyrir utan þá sérfræðinga sem atvinnuveganefndin hafði á sínum snærum. Það hryggir mig því mjög að viðbrögðin voru ekki þau að menn segðu: Það er mikið fagnaðarefni að við skulum nú hafa allt þetta efni til að vinna úr. Fögnum því að þeir sem kallaðir voru til verka með ríkisstjórninni og Alþingi við að vinna þetta mál tóku hlutverk sitt mjög alvarlega og lögðu mjög mikið á sig, lítil sveitarfélög borguðu jafnvel mikla peninga til að reyna að átta sig á áhrifum málsins. Nei, það var ekki gert.

Það var reynt að gera endurskoðunarskrifstofurnar og lögfræðiskrifstofurnar tortryggilegar og sveitarfélögin voru gerð tortryggileg og alltaf var sagt: Þetta fólk er bara undir handarjaðri hinna vondu útgerðarmanna og þess vegna tökum við ekkert mark á því sem þarna er verið að segja. Þessir menn voru sproksettir og átti að reyna að ýta þeim til hliðar með því einfaldlega að gera þá tortryggilega í stað þess að ræða efnislega um þessi mál.

En þó var það þannig að niðurstaða meiri hlutans varð sú að gera ýmsar breytingar á frumvarpinu, sem lá kannski ekki beint við þegar þessi ríkisstjórn á í hlut, og fyrir það má í sjálfu sér þakka. Ég tel það reyndar frekar skyldu ríkisstjórnarinnar að þakka fyrir þegar komið er í veg fyrir að notuð sé útreikningsaðferð sem leiðir til að 50 milljarðar séu lagðir á í veiðiskatt eins og frumvarpið hefði haft í för með sér sé það lesið bókstaflega. Auðvitað var þetta slík vitleysa að menn hurfu frá þessu.

Síðan var tekið tillit til ýmissa annarra hluta og það var út af fyrir sig gott. Ég fagna því til dæmis að í breytingartillögum meiri hluta atvinnuveganefndar er gert ráð fyrir því að taka tillit til fjárhagsskuldbindinga og skulda fyrirtækjanna sem stofnað var til með kvótakaupum. Það er að mínu mati mjög eðlilegt. Í fyrsta lagi höfum við heilt fiskveiðistjórnarkerfi, einkum sem snertir smábáta, sem varð eiginlega ekki til fyrr en eftir síðustu aldamót. Þeir sem voru að starfa í því höfðu ekki tækifæri til að kaupa sér meiri veiðirétt nema á síðustu árum og eru fyrir vikið skuldugri. Hið sama á við um ýmsa aðra, einyrkjana og sérstaklega nýliðana sem hafa verið að koma inn í greinina á síðustu árum. Það eru þeir sem voru skuldugastir og stofnuðu til skuldbindinga sinna í góðri trú, fengu lán hjá sínum fjármálastofnunum, lögðu fram veð í eignum sínum og skyndilega átti með þessu frumvarpi að kollvarpa því öllu. Ég tel að talsvert hafi verið komið til móts við þá. Þó að ég hafi ekki alveg yfirsýn yfir hvort það sé nægjanlegt er það engu að síður í rétta átt.

Menn hefðu átt að átta sig á því fyrir fram að þessi staða væri uppi í sjávarútveginum, að ýmis fyrirtæki hefðu mjög nýlega verið að fjárfesta í aflaheimildum. Maður hefði því gert ráð fyrir því, ef þetta mál hefði verið vel undirbúið, að menn hefðu verið búnir að koma auga á þetta og hefðu þá strax sett það inn í frumvarpið að með einhverjum hætti yrði tekið tillit til þessa. Það var ekki gert. Þó er ekki hægt að segja að yfirvöld hafi ekki vitað af tilvist þessara skulda, þau vissu það alveg og þeim hlaut líka að vera það ljóst að þessar skuldir lægju alveg sérstaklega hjá nýliðunum, eðli málsins samkvæmt því að það eru þeir sem koma nýjastir inn í greinina.

Í frumvarpinu um stjórn fiskveiða er sagt að markmið þess sé að auka nýliðun í greininni. En ef veiðigjaldafrumvarpið hefði gengið fram óbreytt er ljóst mál að allt ævintýri hefði verið úti hjá öllum nýliðum í landinu, meira eða minna öllum þeim sem komu inn í greinina á fyrsta áratug þessarar aldar, það hefði bara verið búið spil hjá þeim. (Forseti hringir.) Menn hlutu þess vegna með einhverjum hætti að taka tillit til þess.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmann að taka tillit til þess að hlé verður gert á þingfundi frá 13.00 til 15.00 vegna nefndafunda og þingflokksfunda. Þar sem hv. þingmaður á tæpar sex mínútur eftir og tveir hv. þingmenn hafa óskað eftir að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns bið ég þingmanninn um að haga ræðu sinni þannig að hann geti gert hlé á henni kl. 13.00 og eftir efni ræðunnar.)

Ég var að fara yfir það, virðulegi forseti, á hvaða hátt þetta bitnaði sérstaklega á nýliðunum. Ég mundi kjósa, ef hæstv. forseti getur orðið við því, að ég fengi að gera hlé á máli mínu núna og hefja þá ræðu mína strax kl. 15.00 þegar fundur hefst að nýju.

(Forseti (ÞBack): Forseti þakkar hv. þingmanni velviljann.)