140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spurði skipulega að þessu, á hverjum einasta fundi þegar til okkar komu gestir. Ég tek fram að 70 gestir komu á fund nefndarinnar, sem er með því mesta sem ég hygg að hafi gerst á fundum slíkra nefnda, alls staðar að af landinu. Ekki var bara um að ræða hin hefðbundnu hagsmunasamtök, við kölluðum til okkar fjölda annarra gesta, fræðimenn, sveitarstjórnarmenn o.s.frv.

Mér er í fersku minni þegar þessi spurning var borin upp þegar fulltrúar fimm sveitarfélaga á landsbyggðinni komu til okkar. Þá var spurt: Hvert hefur samráðið við ykkur eða ykkar samtök verið varðandi þetta? Svarið var einfalt: Þetta er samráðið. Þetta er í fyrsta skipti sem við eigum þess kost að tjá okkur um málið. Þegar það var komið fullbúið inn í þingið og komið út úr 1. umr., það var eina aðkoma þessara manna.

Hið sama sögðu sjómannasamtökin. Maður hefði ætlað að frumskylda allra þeirra sem ætluðu að leggja fram frumvarp af því tagi sem hér er um að ræða væri að ræða við samtök sjómanna. Látum nú hin vondu samtök, Landssamband íslenskra útvegsmanna, liggja á milli hluti, en reynt hefur verið að ófrægja þau mjög ómaklega í allri þessari umræðu. Ræðum þá bara við sjómannasamtökin sem ættu að hafa eitthvað með þetta að gera, ekki síst í ljósi þess hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn. Forverar þeirra flokka voru af forustumönnum sínum kallaðir verkalýðsflokkarnir vegna þess að þetta fólk sagðist alltaf taka stöðu með alþýðunni í landinu, launþegunum, verkalýðshreyfingunni eins og það var orðað á þeim tíma. En núna telja stjórnvöld sig yfir það hafin að vera að ræða við launþega um svo stór mál.

Allt sem gert var í aðdraganda þessa máls var unnið í fanginu á hæstv. ráðherrum. Ef um samráð var að ræða þá var það sýndarsamráð þar sem menn voru kallaðir til stutts fundar og þeim gerð grein fyrir því hver niðurstaðan væri, og hún var þá komin.