140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ræðu hans. Hann svaraði að vísu spurningum varðandi áhrif frumvarpsins á landsbyggðina í fyrra andsvari en ég hef áhuga á að heyra nánar um það frá þingmanninum.

Eins og ég hef skilið þessa umræðu hingað til má skipta ágreiningsefnunum í tvennt, annars vegar hafa menn umtalsverðar áhyggjur af því hvernig staðið hafi verið að útreikningnum á veiðigjaldinu og þar af leiðandi upphæðinni og hins vegar því sem ég hef kannski lagt mesta áherslu á í málflutningi mínum sem er hvernig tekjunum af veiðigjaldinu verði ráðstafað.

Í frumvarpi sem fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, vann, sem var að vísu aldrei lagt fram á þingi, var tillaga í 28. gr. um skiptingu á veiðigjaldinu á þann máta að 50% tekna af veiðigjaldinu skyldu renna í ríkissjóð, 30% til ráðstöfunar sveitarfélaga eða landshlutasamtaka og síðan skyldu 20% fara í að efla nýsköpun, rannsóknir og þróun ásamt sameiginlegum markaðsmálum í íslenskum sjávarútvegi. Ég hef mikinn áhuga á að heyra frá þingmanninum hver afstaða hans til þessarar tillögu er.

Í gær kynnti hv. þm. Jón Bjarnason að hann og hv. þm. Atli Gíslason hefðu í hyggju að leggja fram breytingartillögu sem væri nokkuð samhljóða þessari grein í frumvarpinu. Telur þingmaðurinn, ef þetta yrði samþykkt, að það mundi að einhverju leyti koma til móts við þær miklu áhyggjur sem ég og hv. þingmaður, eins og kom fram í andsvari hans hér áðan, höfum af áhrifum veiðigjaldsins á sjávarbyggðirnar?