140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins fyrst út af því hvað mér finnst sveitarstjórnarmenn í Reykjavík hafa verið værukærir gagnvart þeim frumvörpum sem hérna er verið að fjalla um. Það vekur í fyrsta lagi undrun vegna þess að Reykjavík er stærsta einstaka verstöðin, það vitum við, en ekki síður vegna þess að sú starfsemi sem hefur sprottið upp í kringum sjávarútveginn, alls konar þjónustustarfsemi sem menn kalla núorðið sjávarútvegsklasann, er að mjög miklu leyti á höfuðborgarsvæðinu. Það er því ljóst mál að ef sjávarútvegurinn veikist verða fyrstu viðbrögðin í sjávarútveginum þau að halda að sér höndum varðandi alla fjárfestingu og það mun bitna mjög hratt á þeim fyrirtækjum sem eru einkanlega staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna undrar mig mikið að menn geri sér ekki grein fyrir því hversu mikið hagsmunamál það er fyrir höfuðborgarsvæðið líka að ekki sé gengið of harkalega fram gegn sjávarútveginum.

Aðeins út af vangaveltum um að fá fjármunina aftur heim í hérað. Ég held að það þurfi að ganga frá þessu þannig að mjög stórum hluta sé ráðstafað á landsbyggðinni í gegnum sveitarfélögin þar. Það sem verið er að gera núna, með því að taka einhvern lítinn hluta af áætluðum tekjum af kvótaþinginu og ráðstafa til sveitarfélaganna, pínulitlum peningum, og egna þau eiginlega hvert gegn öðru þar sem deilur verða um það hvort sjávarbyggðirnar eigi að fá þá peninga eða hvort öll sveitarfélög á landsbyggðinni eigi að fá þá, finnst mér vera ljótur leikur. Mér fannst það t.d. mikill ágalli, einn af mörgum, á frumvarpi hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann lagði fram slíkar hugmyndir sem áttu að færa held ég sveitarfélögunum 500 millj. kr. og síðan átti á einhvers konar opnum slagsmálamarkaði að útkljá það hvernig þær ættu að skiptast á milli sveitarfélaganna. Ríkið átti að fá alla milljarðana, stóru tölurnar, í sinn vasa en sveitarfélögunum var att saman (Forseti hringir.) í bardaga um smáaurana.