140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:28]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum eitt stærsta deilumál sem hefur ratað inn á þing um langt skeið. Reyndar höfum við deilt um sjávarútveg í áratugi á Íslandi. Það er kannski ekkert skrýtið því að hann er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og forsagan er að mörgu leyti erfið og sýnir hvað það hefur oft verið þungbært að stýra sjávarútveginum hér á landi.

Við höfum farið í gegnum miklar kerfisbreytingar og reynt að breyta öllu umhverfi sjávarútvegsins þannig að við fáum meira út úr auðlindinni en hér var á fyrri tíð. Nú er sjávarútvegurinn auðvitað orðinn gríðarlega tæknivædd og flott atvinnugrein og við erum komin langt fram úr öðrum þjóðum hvað varðar allt rekstrarumhverfi í sjávarútvegi. Það má því segja að eftir alls konar þolraunir í gegnum tíðina stöndum við að vissu leyti með pálmann í höndunum í dag varðandi sjávarútveg okkar. Hann er frekar vel rekinn, mjög tæknivæddur og skilar af sér afar góðri afurð sem við seljum til annarra landa og fáum mikla peninga fyrir. Þetta er auðvitað glæsileg staða.

Hér áður fyrr vorum við ekki svona tæknivædd. Það eru til alls konar skemmtilegar minjar og heimildir um það hvað hér var frumstæður sjávarútvegur eins og sums staðar er enn við lýði. Það er ágætt að rifja upp að á Snæfellsnesi var t.d. gríðarlega mikil útgerð á sínum tíma. Þar voru verbúðir, menn komu þar fyrir verbúðum meðfram ströndinni, og á þarsíðustu öld hlóðu menn hreinlega úr grjóti lítil birgi þar sem fiski var komið fyrir. Mér skilst að nú sé þar mesta þéttni minja af þessu tagi á Norðurlöndunum. Það er því mikilvægt að við höldum upp á þessa sögu og pössum upp á þessar minjar.

Síðan þá hefur sjávarútvegurinn þróast gríðarlega mikið. Við vorum með sóknardagakerfi um tíma. Það var ekki gott kerfi, mjög umdeilt, og við breyttum yfir í aflamarkskerfi sem hefur verið miklu farsælla. Þegar sóknardagarnir voru hér við lýði var allt of mikið fjárfest í sjávarútvegi og menn nýttu sóknardagana í upphafi fiskveiðiársins, drifu sig á sjó og reyndu að fiska sem mest og þurftu svo að binda skipið við bryggju það sem eftir var af árinu. Þetta var mjög óhagkvæmt, skapaði mikla keppni þegar menn sóttu sjóinn og ákveðna hættu líka því að menn fóru út í öllum veðrum. Kerfinu var því breytt yfir í aflamarkskerfi.

Á sínum tíma fór sjávarútvegurinn í gegnum miklar sveiflur og fór nánast reglulega á hausinn, má segja. Afar mörg fyrirtæki urðu gjaldþrota og menn sáu að gera þurfti veigamiklar breytingar á kerfinu og það var farið í það.

Þá tókum við upp svokallað aflamarkskerfi og úthlutuðu eftir ákveðinni reynslu — menn litu þá nokkur ár til baka og úthlutuðu á skip ákveðinni aflamarkshlutdeild eða kvóta, eins og sagt er. Þá gátu menn farið og veitt sinn hlut og dreift álaginu yfir árið og reynt að gera þetta með hagkvæmum hætti, þeir gátu líka fært kvóta á milli skipa og á milli landsvæða þannig að þetta varð markaðsdrifið kerfi. Það hafði gríðarlega kosti í för með sér en það hafði líka ákveðna galla. Það þekkjum við öll sem höfum fylgst með umræðunni í lengri tíma. Kostirnir voru þeir að það var hægt að hagræða mjög mikið í greininni. Menn gátu safnað saman aflaheimildum í ákveðnum tegundum á ákveðin fyrirtæki sem urðu hagkvæm fyrir vikið og auðlindin varð verðmætari. Við fengum sem sagt meira út úr auðlindinni í peningum talið fyrir Ísland í heild. Gallarnir voru þeir að svo markaðsdrifið kerfi tekur ekki mikið tillit til félagslegra þátta. Hægt var að færa kvóta í stórum stíl eða aflaheimildir frá stað A til staðar B. Af þeim sökum hafa sum sjávarútvegspláss misst frá sér aflaheimildir og sitja eftir með sárt ennið með lítið sem ekkert af aflaheimildum eftir. Byggðaþróun hefur að því leytinu raskast í landinu af því að kvóti hefur færst til. En þeir sem fengu aflahlutdeildirnar til sín unnu þá líka að sama skapi í þessum tilfærslum og fengu meiri aflaheimildir og gátu unnið meiri afla og fengu þá líka tekjur inn í samræmi við það. Það skal því viðurkennast að þetta kerfi hefur mikla kosti en það hefur líka galla.

Menn hafa verið að reyna að koma til móts við galla kerfisins með því að taka tillit til einstakra byggða með byggðaúthlutun o.s.frv. til að milda þessi félagslegu áhrif. Það hefur líka verið mjög umdeilt og erfitt að útdeila úr svokölluðum byggðapottum því að það er alltaf erfitt að finna eftir hverju eigi að fara þegar menn útdeila ákveðnum gæðum. Þetta hefur því verið frekar harðdrægt allt saman.

Á heildina litið er það mín skoðun að þetta kerfi hafi verið hagkvæmt fyrir land og þjóð og sé mun sterkara og öflugra en þau fiskveiðistjórnarkerfi sem notast hefur verið við víðast hvar erlendis. Ég tel því að það eigi ekki að gera mjög miklar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi okkar nema menn viti nákvæmlega hvað þeir eru að fara að gera. Ég tel, miðað við hvernig það mál liggur sem við erum nú með í höndunum, veiðigjöld, að ekki sé ljóst hverjar afleiðingarnar kunni að verða, þær séu óljósar.

Umsagnaraðilar eru mjög óhressir og meiri hlutinn hefur reynt að koma til móts við gagnrýni þeirra að einhverju leyti en því er ekki lokið. Ég ætla að ítreka og ég mun líklega enda ræðu mína á þeirri áskorun líka að ég tel að atvinnuveganefnd verði að fá umsagnir við breytingartillögum meiri hlutans. Það þýðir ekki að ætla að samþykkja þetta mál frá þinginu í þeim búningi sem það er núna nema umsagnir fáist um breytingartillögurnar. Þetta er það stórt og viðkvæmt mál að það telst gríðarleg áhættusækni af hendi meiri hluta Alþingis, ríkisstjórnarflokkanna, að samþykkja breytingartillögurnar — ég vísa til meiri hlutans því að ég sé að stjórnarandstaðan mun ekki samþykkja þær — ef viðkomandi flokkar ætla að klára málið án þess að fá úttekt á því hvað breytingartillögurnar þýða í raun. Það er glapræði að gera það að mínu mati og vinnubrögð sem henta alls ekki.

Ég tel að hægt sé að fá slíkar umsagnir. Það er hins vegar spurning hver eigi að veita þær. Ég tel að þær eigi að koma frá þeim sérfræðingum sem hafa komið að málinu hingað til, og þá vil ég gera þeim Daða Má Kristóferssyni, dósent við Háskóla Íslands, og Stefáni B. Gunnlaugssyni, lektor við Háskólann á Akureyri, hæst undir höfði. Þeir hafa gefið atvinnuveganefnd umsagnir við það mál sem hér liggur fyrir og ég tel að gefa ætti þeim tíma til að fara yfir breytingartillögurnar. Þeir ættu að fá tíma til að fara vel yfir málið í heild og hugsanlega líka stærri eða mikilvægustu umsagnirnar, ég er ekki viss um að það þurfi að fara í annað skipti yfir allar þær 70 umsagnir sem hafa nú þegar borist. Ég tel að það eigi alla vega að biðja þessa sérfræðinga að fara aftur yfir málið miðað við hvernig nýju breytingartillögurnar hljóða og fá þá til að gefa þeim einkunn og gefa þinginu álit á því hvað þær þýða. Þeir gáfu frumvarpinu falleinkunn eins og það kom fram og hafa hrakið mjög margar grundvallarforsendur í veiðigjaldamálinu sem við erum að tala um núna í dag og því tel ég að þeir eigi að fá tækifæri til að fara yfir breytingartillögurnar.

Hve mikinn tíma mundi það taka? Ég átta mig kannski ekki alveg á því á þessari stundu. Sumir segja viku, aðrir segja tvær, hugsanlega tæki það lengri tíma. Ég efast þó um að þetta þyrfti langan tíma því að þeir eru það mikið inni í málinu nú þegar. Ég tel því að við eigum að staldra við núna og fá umsagnir á breytingartillögum meiri hlutans, bíða með málið þangað til, í eina til tvær vikur ef tekst að herja þetta út á þeim tíma, eða bíða bara með málið í heild til haustsins og vera þá búin að fá niðurstöður umsagnanna inn í haust. Þetta held ég að hljóti að vera farsælast því að annað er allt of áhættusamt.

Virðulegur forseti. Ég ætlaði að fara aðeins yfir hvað sjávarútvegurinn er mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. 35 þúsund starfsmenn vinna beint og óbeint í sjávarútvegi. Þetta er því mjög stór atvinnugrein og mikilvæg. Ég skoðaði það fyrir ekkert mjög löngu síðan hvaða atvinnugreinar sköpuðu okkur gjaldeyristekjur á Íslandi og það er svolítið gaman að segja frá því — ég held að þessar tölur hafi ekki breyst mikið, þær eru ekki splunkunýjar, þær eru frá 2008 — að þær atvinnugreinar sem voru í þremur toppsætunum fyrir að skila okkur sem mestum gjaldeyristekjum voru stóriðjan í fyrsta sæti, ekki sjávarútvegurinn, margir skyldu nú halda það, með 29,7% af gjaldeyristekjum Íslands — þá var sjálfsagt komin inn stóriðjan á Austurlandi fyrst gjaldeyristekjur af stóriðju fóru upp fyrir sjávarútveginn — og í öðru sæti var sjávarútvegurinn með 26,3% af gjaldeyristekjunum og í þriðja sæti, og það er kannski það ánægjulegasta í þessu, var ferðaþjónustan með 16,9% af gjaldeyristekjunum. Ferðaþjónustan hefur verið í mikilli sókn og verður það líklega áfram á næstu árum þannig að þessar stoðir eru þær þrjár meginstoðir sem við lifum á hér á landi, þ.e. sem afla okkur mestra gjaldeyristekna. Sjávarútvegurinn er þarna yfir 26% og er því gríðarlega mikilvægur.

Vert er að draga það líka fram, af því að það er mikil umræða um landsbyggðina annars vegar og höfuðborgarsvæðið hins vegar, að 90% aflaheimildanna eru á landsbyggðinni. Hins vegar eru milli 80 og 90% af þjónustufyrirtækjunum á höfuðborgarsvæðinu. Afkoma sjávarútvegsins snertir því allt landið, afkomu allra á Íslandi, bæði landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Ég hef hins vegar, þrátt fyrir að vera þingmaður á höfuðborgarsvæðinu, mikla tilhneigingu til að líta til hagsmuna sjávarútvegs á landsbyggðinni en tel auðvitað að þingmenn allir eigi að gæta hagsmuna Íslands alls og horfa á landið sem heild og vera ekki í þröngu kjördæmapoti, alls ekki. Þess vegna er ég mjög áhyggjufull yfir afleiðingum þessa frumvarps á landsbyggðina.

Reyndar held ég að hitt frumvarpið, sem við erum ekki að ræða, þ.e. breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í heild sinni, sé alvarlegri aðför að landsbyggðinni og rekstri sjávarútvegsfyrirtækja en það frumvarp sem við erum að ræða núna, sem er þó nógu þungt í vöfum, veiðigjaldafrumvarpið. En við erum ekki að ræða breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu heldur einungis veiðigjaldið. Því skal þó ekki á móti mælt að þessi tvö frumvörp tengjast auðvitað og hafa áhrif hvort á annað og það draga þeir einmitt fram, Daði Már Kristófersson og Stefán Gunnlaugsson, í greinargerð sinni.

Virðulegur forseti. Ég sagði að þetta frumvarp hefði mjög mikil áhrif á landsbyggðina. Ég man eftir einni tölu í því samhengi sem ég held að ég hafi lesið einhvers staðar hjá umsagnaraðilum eða í einhverju nefndaráliti um eitt einstakt fyrirtæki — þetta er kannski ekki ýktasta dæmið, ég hef ekki yfirsýn yfir það — en mig minnir að ég hafi lesið að í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum vinni ákveðið margir eða 10% af íbúum Vestmannaeyja hjá því einstaka fyrirtæki, þessu eina fyrirtæki. Þá sér maður hvað þetta er rosalega tengt lífinu á viðkomandi stað. Ef illa gengur hjá svona fyrirtæki gengur væntanlega að sama skapi illa hjá þessu fólki og á staðnum. Ef vel gengur þá gengur líka vel hjá þessu fólki og á staðnum, þetta hangir algjörlega saman.

Þegar menn gera slíkar breytingar og ætla að taka svona gjöld — þetta heitir veiðigjald en er frekar veiðiskattur — verða þeir að horfa á afleiðingarnar út frá hlutföllum, hlutfallsáhrifum, sem sagt út frá skala. Þess vegna hef ég svo miklar áhyggjur af landsbyggðinni ef þetta fer í gegn eins og meiri hlutinn leggur nú til. Ég held að þetta hafi of mikil áhrif og of neikvæð áhrif. Það er mín niðurstaða.

Ég tel að ýmsir sem hafa tekið þátt í þessari umræðu opinberlega hafi algjörlega farið af hjörunum og málað skrattann á vegginn, en mín heildarniðurstaða er sú að þetta frumvarp gangi ekki upp. Það er verið að innheimta of há gjöld og fyrir utan það eru forsendurnar gríðarlega hæpnar.

Ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr greinargerð Daða Más Kristóferssonar og Stefáns Gunnlaugssonar hér á eftir því að ég var mjög hissa á að sjá hvernig í ósköpunum frumvarpið leit út í reynd þegar búið var að skoða það af sérfræðingum. Talað er um að hreinlega hafi verið gerð mistök við frumvarpssmíðina og þess vegna hafi algjörlega rangar tölur komið út úr útreikningunum þegar menn fóru að reikna út hvað veiðigjaldið ætti að gefa, en því skal haldið til haga að meiri hlutinn hefur tekið á því og gert breytingartillögur til þess að reyna að laga það. Það sýnir svolítið hvað allar forsendur eru hæpnar.

Af hverju erum við í þessari stöðu? Af hverju er þetta voðalega stríð hér í gangi? Af hverju er ríkisstjórnin komin í talsverða vörn með þetta mál og sjávarútvegurinn alveg uppi á standinum? Ég held að það sé ekki hægt að lýsa þessu með einhverjum mildari orðum. Það er mikil óánægja um allt land. Mér skilst að á morgun muni sjómenn og landverkafólk og þeir sem standa að útgerð almennt standa úti á Austurvelli og halda samstöðufund til að sýna óánægju með þetta mál og þær breytingar sem eru í farvatninu.

Af hverju stöndum við í þessum sporum? (Gripið fram í.) Jú, það er vegna þess að það eru mjög miklir hagsmunir í húfi. Við höfum held ég aldrei gert neinar breytingar á sjávarútvegi nema um þær hafi verið þokkalega mikil læti. Þetta er kannski ekki algjörlega nýtt að því leytinu til. Svo verður líka að segjast eins og er að ríkisstjórnarflokkarnir hafa sagt mjög mikið í aðdragandanum. Þeir hafa gengið fram til kosninga, síðustu kosninga og líka þar áður, með stefnu um breytt kerfi og þá aðallega þessa fyrningarleið, bæði Samfylkingin og VG, og þeir hafa sett inn í samstarfsyfirlýsingu sína, það heitir ekki stefnuyfirlýsing heldur samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, kafla um fiskveiðar, þ.e. á bls. 10. Það sést kannski hvað allt er mótsagnakennt þegar maður fer að skoða það, þar segir:

„Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns.“

Markmiðið er sem sagt að fiskveiðarnar séu hagkvæmar og skapi verðmæt störf. Maður hefur ákveðnar efasemdir um að þetta frumvarp leiði til þess og ég held að það sé mjög auðvelt að færa rök fyrir því að það leiði ekki til hagkvæmni í sjávarútvegi. Mjög margir umsagnaraðilar hafa líka sagt það.

Og hér stendur:

„Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er.“

Það er rétt, það hefur gengið vel í sjávarútvegi upp á síðkastið. Sjávarútvegurinn hefur grætt á veikri stöðu krónunnar, en það er ekki þar með sagt að það eigi að ofurskattleggja sjávarútveginn, sérstaklega ekki ef maður horfir á hvaða afleiðingar það getur haft. Ég ætla að skjóta því hérna inn að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, sem talaði að minnsta kosti í fyrri tíð mikið gegn slíkri skattlagningu, var á fundi hjá Brimi í gær þar sem talsvert margir hv. þingmenn mættu líka. Hann hélt fína ræðu, færði rök fyrir þessu frumvarpi, veiðigjaldafrumvarpinu, og maður fann að réttlætingin í hans munni var yfirleitt þessi: Ríkissjóður er nánast gjaldþrota, við erum búin að ganga í gegnum gríðarlegt efnahagshrun og það verða fleiri að taka á og sjávarútvegurinn verður að vera með í að koma landinu út úr þessari efnahagsklípu þannig að sjávarútvegurinn verður að borga meiri skatta. Þetta er held ég réttlætingin hjá þeim sem hafa skipt um skoðun eins og ég tel að hæstv. ráðherra hafi gert fyrst hann talaði svo fjálglega gegn veiðigjaldinu á sínum tíma.

Ég ætla að halda áfram með samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Hér segir, með leyfi forseta:

„Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Þetta hefur maður ekki á tilfinningunni að sé að ske. Ég tel að það sé ekki verið að bæta rekstrarskilyrði sjávarútvegsins, skapa bestu rekstrarskilyrði sem völ er á. Ég held að það sé ekki verið að treysta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins til langs tíma og það er örugglega ekki verið að leita sátta um stjórn fiskveiða, ég held að það sjái allir sem eru að fylgjast með.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa sagt mjög margt. Þeir segja hér áfram í kaflanum Þjóðareign og mannréttindi að það eigi að:

„1. stuðla að vernd fiskstofna

2. stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar

3. treysta atvinnu

4. efla byggð í landinu

5. skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar

6. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.“

Þetta er sem sagt í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnarflokka. Þeir ætluðu að fara svokallaða fyrningarleið en nú er búið að leggja hana til hliðar. Það má kannski segja að öll þessi umræða hafi þó skilað því að mati okkar framsóknarmanna að fallið hefur verið frá fyrningarleiðinni. Framsóknarflokkurinn hefur hafnað þeirri leið, gerði það á síðasta flokksþingi ef ég man rétt, árið 2009, og telur betra að byggja í heildina á núverandi kerfi og viðhalda stöðugleikanum. Þetta er því ekki alslæmt.

Síðan segir hér:

„Endurskoðunin mun verða unnin í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi og miðað við að áætlun um innköllun og endurráðstöfun taki gildi í upphafi fiskveiðiárs 1. september 2010. “

Þetta er auðvitað löngu komið út úr kortinu, nú er að líða að 1. september 2012. Ég hef vissan skilning á því að ríkisstjórn, sem hefur sagt svo mikið og afgerandi um hvað hún ætli að gera varðandi sjávarútveginn og hefur síðan þurft að bakka verulega frá því, reyni að komast eins langt með þetta mál og hægt er. Ég held að það útskýri að vissu leyti spennuna og átökin um bæði veiðigjaldafrumvarpið og það frumvarp sem við erum ekki byrjuð að ræða, þ.e. breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég hef því vissan skilning á því hvað ríkisstjórnarflokkarnir ganga langt í að reyna að koma þessum breytingum í gegn. Þess vegna erum við löngu fallin á starfsáætlun þingsins og erum að tala langt fram yfir hinn venjulega vinnutíma sem við ætluðum að nýta í vorþingið. Þetta er að mínu mati, virðulegur forseti, skýringin á því að við stöndum í talsverðum átökum um mjög stórt og mikilvægt mál. Það er svo langt á milli manna, bæði langt á milli stjórnmálaflokka í þessu máli og langt á milli hagsmunaaðila, og allir þessir aðilar hafa farið mikinn, talað bratt og eiga erfitt með eins og maður segir á skandinavísku að „gleypa kamel“, þ.e. að éta ofan í sig það sem áður hefur verið sagt.

Talandi um þetta hef ég áhuga á að fá að lesa aðeins upp úr viðtali — mér finnst þetta aldrei mjög smart í pólitík, en ég ætla samt að gera þetta — sem tekið var við hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon, sem var á þeim tíma þingmaður Alþýðubandalagsins. Viðtalið er frá júlí 1997. Mjög margt breytist og menn geta skipt um skoðun, allt í lagi með það, en hér varð efnahagshrun og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon hefur þurft að éta mjög margt ofan í sig út af efnahagshruninu og hefur skipt um skoðun í hverju málinu á fætur öðru. Það getur verið alveg réttmætt að gera það því að þegar aðstæður breytast geta menn þurft að taka annan pól í hæðina. Mér finnst aldrei mjög snjallt að rifja upp eitthvað sem er langt aftur í fortíð, en ég ætla samt að gera það í þessu tilviki því að rökin sem hann notar í þessu viðtali eru algjörlega þau sömu og mjög margir, nánast meiri hluti umsagnaraðila, notar í dag. Þetta er í blaðinu Útvegurinn og fyrirsögnin er „Veiðigjaldið skotið niður“. Það er svolítið gaman að skoða þetta viðtal, sérstaklega eftir að hafa verið á fundi hjá Brimi í gær þar sem hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon færði einmitt rök fyrir veiðigjaldafrumvarpinu eins og það liggur fyrir í dag. Ég ætla ekki að lesa allt viðtalið en hérna er hluti, með leyfi forseta:

„Um þá aðferð sagði Steingrímur: „Þetta yrði umbylting á núverandi kerfi þar sem mikil óvissa fylgdi í kjölfarið. Atvinnuöryggi myndi skaðast og ofboðslegt kapphlaup færi í gang, því þeir sem ekki næðu veiðiheimildum í fyrstu umferð myndu ekki kemba hærurnar. Þetta mundi rjúfa réttarsambandið á milli útgerða og undangenginnar veiðireynslu þeirra og úthlutunar veiðiréttarins.““

Jafnframt segir:

„Í ræðu sinni lagði Steingrímur J. Sigfússon áherslu á menntun og tækniþróun og sagði að viðtekin auðlindaskilgreining væri gamaldags og þröng. Líta þyrfti á fjölmarga aðra þætti sem í dag og í framtíðinni teldust til auðlinda, ekkert síður en t.d. fiskurinn í sjónum, svo sem markaðsaðgang, menntun, þekkingu og fleira. Hann sagði jafnframt að tímabært væri að menn færu að líta á sjávarútveginn sem hátæknivædda matvælastóriðju.“

Svo er, virðulegur forseti, bein tilvitnun í þáverandi hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, núverandi hæstv. ráðherra:

„Hugmyndir um að taka marga milljarða eða milljarðatugi út úr sjávarútveginum í formi veiðigjalds eru í besta falli mjög varhugaverðar og í versta falli stórhættulegar. Velferð þjóðarinnar á fyrstu árum og áratugum næstu aldar kemur til með að ráðast mikið af því hversu vel sjávarútveginum gengur að byggja sig upp og þróast inn í framtíðina sem matvælastóriðja, sem hátæknivædd og þróuð grein þar sem allt er til staðar: vöruþróun, gæðaeftirlit, markaðsþekking, vel þjálfað, vel menntað, vel launað og þá væntanlega ánægt starfsfólk. Ekkert eitt mál er afdrifaríkara fyrir framtíð byggðakeðjunnar hringinn í kringum landið.“

Síðan segir hér áfram:

„Steingrímur sagði augljóst að veiðigjald mundi draga úr mætti fyrirtækja í sjávarútvegi til að byggja sig upp fyrir framtíðina.“

Svo er hér, virðulegur forseti, vitnað beint í hann:

„Veiðigjald yrði íþyngjandi fyrir sjávarútveginn og það yrði íþyngjandi fyrir byggðarlögin. Fyrir mér er málið ekki flókið og það þarf ekki að eyða miklum tíma í að rífast um það fram og aftur. Þessu má með einföldum orðum lýsa á eftirfarandi hátt: Sá hagnaður, í tapárum það eigið fé, fyrirtækjanna sem færi í að greiða gjaldið, færi út úr fyrirtækjunum og út úr byggðarlögunum. Það verður ekki eftir þar til fjárfestingar og uppbyggingar. Það er morgunljóst. Í hvað hefur hagnaður Síldarvinnslunnar í Neskaupstað farið undanfarin ár? Hann hefur í meginatriðum farið í endurnýjun loðnubræðslunnar, í að kaupa Blæng, fór í að endurbyggja Beiti og fer í að endurbyggja Börk. Ef þessi hagnaður hefði að stórum hluta til verið gerður upptækur hefði hann ekki farið í þetta. Málið er ekkert flóknara. Það hefur alltaf verið þannig að starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækjanna, sjómennirnir, fiskvinnslufólkið og íbúar sjávarútvegsbyggðarlaganna hafa deilt og munu deila kjörum með sjávarútveginum á sínum heimaslóðum.“

Þetta var skoðun hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar á sínum tíma. Alveg sami tónninn er núna í umsögnum sem koma frá hagsmunaaðilum og mörgum þeim sem eru á mörkum þess að vera beinir hagsmunaaðilar. Eru sveitarfélögin beinir hagsmunaaðilar? Þau hafa auðvitað mjög mikinn hag af sjávarútvegi en þau reka ekki beint sjávarútvegsfyrirtækin sjálf. Sveitarfélögin eru upp til hópa mjög ósátt við þetta veiðigjaldafrumvarp.

Virðulegur forseti. Af því að ég nefndi landsbyggðina er ég algjörlega á því að við eigum ekki að fara hart fram gegn landsbyggðinni í því sem við gerum almennt á Íslandi. Ef eitthvað er eigum við að reyna að styðja við hana jafnvel þó að það sé ekki gert með algjöra hagkvæmni að leiðarljósi. Ég tel að það sé mjög varhugavert að íbúar Íslands verði upp til hópa einungis á höfuðborgarsvæðinu, svo verði nánast auðn um landið. Það er algjörlega fráleit staða að mínu mati. Það er óhagkvæmt í heildina og þess vegna er ég tilbúin að beita ýmiss konar aðgerðum, jafnvel þó að þær séu að einhverju leyti óhagkvæmar, til að viðhalda byggð í ákveðnum kjörnum hér á landi.

Sú aðgerð sem nú stefnir í er að mínu mati mjög óhagkvæm, að taka þessi háu veiðigjöld. Ég vara við því ef landsbyggðin fær mörg högg á sig í viðbót. Oft fær hún högg á sig af eðlilegum ástæðum, fólk flytur, það er að mennta sig annars staðar, snýr ekki til baka, makinn sem það fann þar sem það menntaði sig fær ekki vinnu á heimaslóðum o.s.frv. Þetta er allt eðlilegt. Ég tel vera stórskaðlegt ef við förum að taka óeðlilegar ákvarðanir og veita landsbyggðinni högg.

Ég leit á niðurstöður úr nýrri skýrslu sem Byggðastofnun gerði og er samantekt um stöðu byggða á Íslandi sem hafa búið við viðvarandi fólksfækkun undanfarin ár. Þetta er mjög merkileg skýrsla. Ritstjóri er Sigríður K. Þorgrímsdóttir og höfundar efnis eru Elín Gróa Karlsdóttir, Sigríður K. Þorgrímsdóttir, Sigríður E. Þórðardóttir og Sigurður Árnason. Skýrslan er gefin út í maí 2012. Þetta er því glóðvolg skýrsla. Önnur var gerð fyrir einhverjum árum síðan, árið 2008, og var hluti af aðgerðum byggðaáætlunar 2006–2009. Þetta er því skýrsla af sama kalíberi og unnin á sama hátt nema ég held að það hafi verið tekið 10 ára tímabil fyrst en núna er tekið 15 ára tímabil. Skoðuð voru svæði þar sem íbúum hefur fækkað um 15% eða meira á 15 ára tímabili.

Það er svolítið merkilegt að lesa þessa skýrslu en ég ætla ekki að lesa upp úr henni, það tekur of langan tíma. Í skýrslunni sér maður hvað mörg svæði á Íslandi, því miður allt of mörg, búa við alvarlega fólksfækkun. Maður sér líka í sömu skýrslu hvað er að angra fólk á þessum svæðum. Það er tvennt sem er aðallega að angra fólkið á þessum svæðum núna. Það er í fyrsta lagi óvissa í niðurskurðinum í opinberri þjónustu sem snýr sérstaklega að heilbrigðismálum og í öðru lagi það sem kallast hér „mögulegar aðgerðir sem varða sjávarútveg“, þ.e. óvissan um hvernig rekstrarumhverfi sjávarútvegsins verður, hvað stjórnvöld ætla að gera. Þetta er það sem er að angra íbúa þessara svæða. Alls konar viðtöl hafa verið tekin við íbúana á þessum svæðum og mikil ferðalög hafa verið í kringum það, það tók tæpt ár að ferðast og tala við fólkið.

Ég vil taka fram nokkur svæði í sambandi við tölur:

Dalabyggð. Það er reyndar ekki mikill sjávarútvegur þar en íbúum Dalabyggðar hefur fækkað um 23% 1994–2011. Heldur hefur dregið úr fólksfækkun undanfarin ár. Það er ágætt, en þetta eru háar tölur.

Norðanverðir Vestfirðir. Íbúum á norðanverðum Vestfjörðum fækkaði um rúm 23% á árunum 1994–2011. Mikil fækkun hefur orðið í aldurshópnum undir 39 ára. Fjöldi íbúa af erlendum uppruna er yfir landsmeðaltali, það var áhugavert að sjá það. Sjávarútvegurinn er mjög mikilvægur þarna á svæðinu, ferðaþjónustan er í vexti o.s.frv.

Sunnanverðir Vestfirðir. Þar var fólksfækkun 32% 1994–2011. Þar kemur fram að á tímabilinu fækkaði mest í þéttbýli um 45% á Bíldudal. Þetta er ekkert smáhögg. Íbúum undir tvítugu fækkaði um meira en helming og í aldurshópnum 20–39 ára fækkaði um nær 40% á tímabili í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi. Þar kemur líka fram það sem mér finnst áhugavert, hlutfall erlendra ríkisborgara er hærra á Vestfjörðum en landsmeðaltal, eða 9%. Á sunnanverðum Vestfjörðum er hlutfallið 13%. Þarna er talað um að sjávarútvegurinn sé mjög mikilvægur á svæðinu.

Íbúum á Ströndum fækkaði (Gripið fram í.) milli 20 og 50% milli 1994–2011. Mest er fækkun í yngstu aldurshópunum eða 40 ára og yngri.

Í Eyjafirði fækkaði íbúum í Fjallabyggð um tæp 30% á árunum 1994–2011 en fjölgaði lítillega á árinu 2011, sem er ágætt. Mest fækkar í yngstu aldurshópunum en fjölgar í þeim eldri.

Ég ætla ekki að vitna meira í þessa skýrslu. Hún er glóðvolg, mjög merkileg, en hv. þingmenn sjá að ekki á að reiða hátt til höggs gagnvart landsbyggðinni í þessu ástandi, í þessari stöðu. Ég tel að þetta frumvarp geri það.

Ég sé að ég á bara tvær mínútur eftir af tíma mínum. Ég hafði hugsað mér að lesa hérna frá umsagnaraðilum. Kannski næ ég að gera eitthvað af því. Það sem kom mér verulega á óvart var þegar umsagnaraðilar sendu inn hvað þetta veiðigjald þýddi fyrir hvern og einn stað. Ég ætla að sjá hvort ég nái að fara yfir það.

Hér er umsögn frá Fjarðabyggð, þar segir, með leyfi forseta:

„Veiðigjald á fyrirtækin í Fjarðabyggð verður“ — samkvæmt frumvarpinu sem kom hérna fram og meiri hlutinn er að leggja til breytingar á — „samtals 3,4 milljarðar kr.“

„Veiðigjald stærstu útgerðarfyrirtækjanna í Fjarðabyggð í dag er um 320 millj. kr. Samkvæmt þessu nemur þetta tíföldun á veiðileyfagjöldum.“

Það er verið að tífalda veiðigjöldin. Segjum að þetta sé leiga á húsnæði. Hver er tilbúinn til þess að borga allt í einu tíu sinnum hærri leigu? Þetta eru allt of háar tölur, virðulegur forseti. Ég tel að menn geti alveg skoðað að hækka það gjald sem fyrir er eitthvað, en svona háar tölur eru út úr kortinu.

Það er líka mjög merkileg umsögn frá Hornafirði. Þar segir um veiðigjaldið, sem hækkar auðvitað mjög mikið þar eins og annars staðar ef þetta verður að veruleika, að ef því væri deilt niður á hvern íbúa á Höfn þýddi það um það bil 779 þús. kr. á mann. Það er alltaf svolítið óréttmætt að taka svona skala, en segjum sem svo að sama upphæð yrði lögð á hvern Reykvíking, þá þýddi það 92 milljarðar. Þetta er eins og sjávarútvegsfyrirtækin í Reykjavík ættu að borga 92 milljarða. Þetta eru allt of háar tölur, virðulegur forseti.

Ég ætla að skora á ríkisstjórnarflokkana og meiri hlutann í atvinnuveganefnd að senda breytingartillögurnar sem þeir telja að séu til bóta (Forseti hringir.) — þær eru örugglega til bóta en þær ná alls ekki nógu langt — til umsagnar. Það má alls ekki ganga frá þessu máli núna án þess að fá úttekt á því hvað þessar breytingartillögur þýða. Annað væri allt of áhættusamt.