140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:16]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Jú, virðulegur forseti, ég get tekið undir þau varnaðarorð. Það voru mjög skýr skilaboð sem komu frá forustumönnum sveitarfélaga um allt land, sérstaklega frá sjávarbyggðunum. Þeir sýndu fram á tekjutapið, bæði beint tekjutap sveitarsjóðs frá fólki sem vinnur í sjávarútvegi, það er einn hlutinn, en líka tekjutapið almennt í sveitarfélaginu af því að ef störf tapast flytur fólk burt og viðkomandi svæði koðnar niður.

Ég tel að allt of langt sé gengið í þessu veiðigjaldafrumvarpi. Ég hef reyndar, eins og ég sagði í ræðu minni, ekkert minni og jafnvel meiri áhyggjur af hinu frumvarpinu þar sem er verið að breyta kerfinu í eðli sínu, gera strúktúrbreytingar. Ég ætla ekki að gera lítið úr veiðigjaldinu en við tökum nú þegar gjald í dag, rúmlega 4 milljarða, 4,5 milljarða, úr greininni og um það töldum við að væri sátt á sínum tíma.

En í frumvarpinu óbreyttu er gert ráð fyrir að gjaldtakan fari í 24 milljarða sem er rosalega há tala miðað við það sem er greitt í dag. Mér skilst að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir 11 milljarða gjaldtöku, með breytingum meiri hlutans eru menn að reyna að bæta aðeins stöðuna og lækka sig, þar er gert ráð fyrir 15 milljarða veiðigjaldi, en það fer svo hækkandi og endar í sama hlutfalli og gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi þó að gjaldstofninn breytist aðeins og talan lækki eitthvað, ég held að hún verði um 20 milljarðar. Þetta er bara of mikil gjaldtaka.

Ég tel að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna eigi að setjast niður og ná sáttum. Ég hef mesta trú á hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra Steingrími J. Sigfússyni í því af öllum ráðherrunum. Ég tel að hæstv. ráðherra eigi að setjast niður með sjávarútvegsaðilum og reyna að sættast á lægri tölu.