140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:21]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er í raun bæði og. Sum fyrirtækin hafa ekki farið í fjárfestingar af því þau finna þessa óvissu og vita ekki hvert stjórnvöld stefna með fiskveiðistjórnarkerfið og hafa beðið og setið á sér, en svo hafa önnur verið að fjárfesta og eru mjög skuldum vafin. Ég heimsótti eitt slíkt fyrirtæki fyrir ekki löngu síðan. Viðkomandi rekstraraðilar höfðu miklar áhyggjur af því að ef það ætti að borga öll þessi veiðigjöld mundu þeir ekki ná að greiða niður skuldirnar sem þeir sátu uppi með af því þeir voru nýbúnir að endurnýja hluta af skipum sínum.

Það er alveg rétt að ekki verður þetta frumvarp til þess að auka nýjar fjárfestingar. Það er alveg ljóst. Þetta er eins og ég sagði áðan, ef maður borgar leigu og svo á að tífalda leiguna fer maður ekki að gera mikið fyrir íbúðina sem maður borgar leiguna af. Þetta dregur máttinn úr viljanum til nýrra fjárfestinga.

Hv. þingmaður kom líka inn á — ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta, kosningaplaggið sem ríkisstjórnarflokkarnir spiluðu út fyrr stuttu varðandi það hvað ætti að nota veiðigjaldið í. Ég held að það sé bara aðgerð til að reyna að minnka reiðina gagnvart þessu frumvarpi og segja við fólkið í landinu: Ef okkur tekst að ná þessum peningum getum við gert marga skemmtilega hluti, kæru vinir. Þetta var svoleiðis plagg. Auðvitað er hægt að setja slíkt fram hvenær sem er. En að mínu mati er þetta ekki sniðug aðferðafræði að reyna að — ég vil kannski ekki segja að reyna að etja þjóðfélagshópum saman, en að gefa í skyn að hægt sé að fara í alls konar verkefni sem svo verður ekki hægt að fara í, ef menn ná ekki gjaldinu inn. Ég tel að almennt sé gengið allt of langt í þessu veiðigjaldsmáli. Þetta eru allt of háar upphæðir. Það verður að lækka þær annars kemur of þungt högg á sjávarútveginn og sérstaklega á landsbyggðinni.