140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég er nú kominn í mína aðra ræðu til þess að ræða um frumvarp til laga um veiðigjöld sem eins og flestir vita er langt frá því að vera óumdeilt mál, enda hefur framlagning þess og öll vinnubrögð sem tengjast því verið með eindæmum. Því til vitnisburðar get ég nefnt að á heilsíðu í Morgunblaðinu í dag mótmæla 131 sveitarstjórnarmenn og bæjarstjóri í landinu þessu frumvarpi. Ég ætla að vitna til þess í upphafi máls míns til að sýna fram á það að við erum ekki ein sem mótmælum þessu, fulltrúar stjórnarandstöðunnar á Alþingi, heldur líka fulltrúar launafólks í landinu og fulltrúar atvinnulífsins. Nú höfum við hér undirskriftir frá 131 sveitarstjórnarmanni og bæjarstjóra eins og sem fram kemur í Morgunblaðinu. Ákall þessara einstaklinga sem tilheyra öllum stjórnmálaflokkum í landinu og eru fulltrúar þeirra í sveitarstjórnum er svohljóðandi, með leyfi frú forseta:

„Við undirrituð vörum Alþingi sterklega við því að samþykkja fyrirliggjandi frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

Greinargerð óháðra sérfræðinga, sem fylgir frumvörpunum og sem unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, ætti að hvetja löggjafann til að staldra við og ígrunda gaumgæfilega áhrif lagasetningarinnar á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og á sjávarbyggðir landsins.

Sérfræðingarnir búast við umhleypingum á næstu árum meðan útgerðin lagar sig að breyttum aðstæðum og segja að áformuð lagasetning muni verða mjög íþyngjandi fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, enn fremur að hækkun veiðigjalds muni án efa kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum.“

Ég ætla að endurtaka þetta, þetta mun kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum.

Áfram heldur yfirlýsing þessara bæjarfulltrúa og sveitarstjóra, með leyfi frú forseta:

„Þá benda sérfræðingarnir á að byggðaaðgerðir frumvarpsins séu ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt var að, enda skorti enn þann langtímastöðugleika sem getur skapað grundvöll fyrir uppbyggingu atvinnulífs í sjávarbyggðum.

Undirritaðir telja að þessi varnaðarorð sem fylgja frumvörpunum séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að umhleypingum með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingargetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með enn minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er. Við slíkt verður ekki unað.“

Þannig hljómar yfirlýsing aðila í sveitarstjórnum sem koma úr Sveitarfélaginu Skagafirði, Sveitarfélaginu Skagaströnd, Grýtubakkahreppi, Fjarðabyggð, Norðurþingi, Grundarfjarðarbæ, Borgarbyggð, Blönduósbæ, Akureyrarbæ, Grindavík, Bolungarvík, Langanesbyggð, Seyðisfirði, Sveitarfélaginu Ölfusi, Akraneskaupstað, Hornafirði, Vopnafjarðarhreppi, Vestmannaeyjabæ, Fjallabyggð, Húnavatnshreppi, Ísafjarðarbæ, Skagabyggð, Sveitarfélaginu Garði, Sveitarfélaginu Árborg, Dalvíkurbyggð, Reykjanesbæjar, Snæfellsbæ, Húnaþingi vestra, Rangárþingi eystra, Stykkishólmi, Vesturbyggð, Akrahreppi, Fljótsdalshéraði og Tálknafjarðarhreppi.

Þetta er löng upptalning en ég tel mikilvægt í ljósi umræðunnar um að við sem erum í stjórnarandstöðu séum að gæta einhverra sérhagsmuna og séum í þessari umræðu í einhverjum annarlegum tilgangi, að vekja athygli á þessu. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafa reynt að leggja málið fram þannig að við séum sérstakir varðhundar stórútgerðarinnar. Það sannast náttúrlega með þeim umsögnum sem hafa komið um þetta mál og þessari yfirlýsingu frá miklum fjölda sveitarstjórnarmanna sem tilheyra öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi, nema kannski Hreyfingunni, að þessi hræðsluáróður og málflutningur stjórnarliðsins, sérstaklega samfylkingarmanna, um að við viljum af einhverjum annarlegum sjónarmiðum koma í veg fyrir að þetta frumvarp verði að lögum, fellur um sjálfan sig.

Við hljótum að að auglýsa eftir stuðningsmönnum þessa frumvarps. Við vitum að þeir eru um það bil 30 hér á Alþingi sem er eiginlega tölfræðilega með ólíkindum, vegna þess að ef maður skoðar umsagnir með frumvarpinu finnum við ekki einn aðila sem er sammála því. Þverskurður þjóðarinnar að mér sýnist er algjörlega á móti þessu frumvarpi og það þyrfti í raun og veru að fá einhvern sérfræðing í tölfræðiútreikningum til þess að finna það út hvernig hér getur verið tæpur meiri hluti þingmanna sem ætlar að styðja þetta mál. Það er náttúrlega með ólíkindum.

Við hljótum líka að kalla eftir fulltrúum stjórnarliðsins til umræðunnar, þá er ég að tala um almenna þingmenn stjórnarliðsins, þar sem þeir geri grein fyrir því og rökstyðji hvers vegna þeir vilja styðja þetta frumvarp um veiðigjöld vegna þess að við erum hér að ræða um sérstakan skatt og þá aðallega á landsbyggðina.

Hv. þingmaður Siv Friðleifsdóttir fór ágætlega yfir það í máli sínu áðan hvernig þróunin í mörgum sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið hefur verið. Hún nefndi að á mörgum stöðum hefur verið ein samfelld varnarbarátta á undangengnum árum. Á Vestfjörðum hefur fólki fækkað um tugi prósenta. Í mínu sveitarfélagi, Fjallabyggð, hefur það einnig gerst. Á norðausturhorni landsins hefur það líka gerst. Við getum tekið fleiri staði sem dæmi í því samhengi.

Í kjölfar hrunsins og eftir hið svokallaða góðæri, sem náði nú reyndar ekki til margra af þessum sveitarfélögum sem við ræðum hér um þar sem mikil fólksfækkun hefur átt sér stað, tók ríkisstjórnin sig til og fór í stórfelldan niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á mörgum af þessum stöðum. En nú er það svo að þessi sveitarfélög eru alls engir þurfalingar. Þau leggja ríkissjóði til gríðarlega fjármuni í formi þeirrar auðlindarentu og arðsemi sem sjávarútvegurinn í þeim byggðarlögum leggur svo sannarlega inn í ríkissjóð.

Það hefur komið fram í skýrslu sem Vífill Karlsson gaf út fyrir nokkrum árum að 75% af opinberu fé, þ.e. af útgjöldum ríkissjóðs, renna til Reykjavíkur, á meðan Reykjavík aflar einungis 42% af tekjum ríkissjóðs. Það er heilmikill halli þegar kemur að úttekt á annars vegar veitingu opinbers fjár og þess sem kemur inn í ríkissjóð. Hlutfallslega fer mun minna á landsbyggðina. Þessi úttekt var gerð áður en farið var fram með mjög harkalegan niðurskurð hjá opinberum stofnunum á landsbyggðinni. Og enn á að halda áfram.

Nú er lagt til að 15 milljarðar verði settir í svokallað veiðigjald, en þau fyrirtæki sem munu greiða það eru í yfirgnæfandi meiri hluta eða 90%, á landsbyggðinni þar sem vagga útgerðarinnar er.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það er útgerð líka á höfuðborgarsvæðinu. Um rúmlega 10% fiskveiðiheimildunum eru í Reykjavík, í Hafnarfirði þar sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þekkir vel til. Á þessum stöðum, í Hafnarfirði og í Reykjavík, er líka verið að skapa gríðarlega mörg störf í tengslum við útgerðina. Reyndar hefur það komið fram og mér finnst að það þurfi að endurspeglast í umræðunni hér að við erum ekki einungis að ræða um sérhagsmuni landsbyggðarinnar, heldur líka höfuðborgarsvæðisins. Þegar þjónusta í tengslum við sjávarútveginn er skoðuð kemur fram að 85–90% af henni er á höfuðborgarsvæðinu. Lítil og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, málmsmiðjur, nýsköpunarfyrirtæki, bókhaldsskrifstofur og fleira mætti nefna, þjónusta íslenskan sjávarútveg.

Þegar við horfum til þess að bein störf og afleidd störf við íslenskan sjávarútveg snerta 35.000 starfsmenn, er ekki með nokkru móti hægt að tala um að við séum að ganga erinda einhverra sérhagsmunahópa. Er það að ganga erinda sérhagsmuna að tala fyrir hagsmunum sjómanna, fiskvinnslufólks, fólks sem starfar við löndun, vöruflutningabílstjórar sem flytja sjávarfang hringinn í kringum landið, eða fólks sem vinnur á bókhaldsskrifstofum, eða tala máli málmiðnaðarmanna sem hafa atvinnu af því að þjónusta sjávarútveginn? Að sjálfsögðu ekki.

Þess vegna er það ekki boðlegt að ekki einn einasti stjórnarliði — þá ætla ég að undanskilja þann forseta sem situr á stóli og gegnir því embætti þar — skuli vera hér í salnum til að ræða þessa mikilvægu hagsmuni. Það er einfaldlega ekki bjóðandi. En þetta eru svo sem ekki ný vinnubrögð þegar kemur að vinnu ríkisstjórnarinnar í mikilvægum málum. Ég ætla ekki að fara að flytja enn eina Icesave-ræðuna, en það átti nú að keyra það mál í gegn. Þeir voru þægir þar, þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna, og ætluðu að hlýða hæstv. ráðherrum, Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, í blindni. En við þekkjum alla þá sögu.

Með þessu frumvarpi erum við að stórhækka veiðigjöld á útgerðina. Nú er ég ekki að tala um að við eigum ekki að taka auðlindarentu af sjávarútveginum, en að mínu viti erum við að ganga allt of langt í þessu efni. Það er verið að auka enn frekar bilið sem er á milli opinberra framlaga til landsbyggðarinnar og skattlagningar og höfuðborgarinnar og ég nefndi áðan. Við höfum talað fyrir því á Alþingi að jafna aðstöðumun fólksins í landinu. Við horfum til að mynda upp á það að 10% landsmanna greiða tvisvar sinnum meira fyrir að hita húsin sín heldur en hin 90%. Veit ég að hv. þm. Árni Johnsen sem hér er í salnum þekkir ágætlega til þess.

Við höfum talað fyrir því að jafna þennan aðstöðumun, veita fólki jöfn tækifæri. Við erum búin að tala um það núna í á fjórða ár, samt gerir ríkisstjórnin það eitt að draga úr framlögum til þess að jafna húshitunarkostnað í landinu. Og nú ætlar ríkisstjórnin að fara fram gagnvart þessum sveitarfélögum sem við höfum skilgreint sem köld svæði og innheimta ómælda fjármuni í skattlagningu sem á að fara inn í ríkissjóð og við vitum að muni í takmörkuðum mæli skila sér aftur til sjávarbyggðanna.

Við höfum líka horft upp á það að hinar dreifðu byggðir hafa þurft að taka á sig mikinn skell vegna þess að opinberar álögur á eldsneyti eru eins og þær eru og virðisaukaskattur á eldsneytið er sá hæsti í heiminum, 25,5%. Við höfum því horft upp á það að flutningskostnaðurinn hefur líka verið að aukast. Það má í raun og veru segja að stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum hefur verið hinum dreifðu byggðum mjög fjandsamleg á undangengnum þremur árum og það á að halda áfram að bæta í.

Það er því eðlilegt að við tölum fyrir jöfnun aðstöðumunar. Við hv. þm. Eygló Harðardóttir og fleiri þingmenn Framsóknarflokksins höfum rætt um það og okkur þykir það vera réttlætismál, að það hlutfall veiðigjalda sem nú er gert ráð fyrir að eigi að renna til sveitarfélaganna, verði hækkað. Þannig styðjum við þær byggðir og aukum tækifæri þeirra til atvinnusköpunar og jöfnunar á lífskjörum. Það er bráðnauðsynlegt.

Það verður þess vegna mjög athyglisvert þegar tillögur um að hlutfallslega hærra hlutfall af þessum veiðigjöldum muni renna til sjávarbyggðanna koma fram í atkvæðagreiðslu um málið að fylgjast með því hvernig menn munu greiða atkvæði.

Frú forseti. Ég nefndi það fyrr í ræðu minni og reyndar í fyrstu ræðu minni um þetta mál, að það væri með ólíkindum að sjá hverjar upphaflegar hugmyndir ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna voru um skattlagningu á sjávarbyggðum landsins. Í umsögn sem ég hef undir höndum frá sveitarfélaginu Fjarðabyggð, sem er stærsta sveitarfélag á Austurlandi, kemur fram að samkvæmt upphaflegum hugmyndum stóð til að veiðigjald á fyrirtækin í Fjarðabyggð yrðu 3,4 milljarðar kr. Samkvæmt frumvarpinu var áætlað að veiðigjaldið næmi 745 þús. kr. á hvern íbúa í sveitarfélaginu.

Það má náttúrlega hugsa sér þegar maður les svona tölur að menn séu hreinlega að fara með einhver gamanmál, vegna þess að slík skattlagning getur að sjálfsögðu ekki gengið upp í raunveruleikanum.

Það er mjög athyglisvert að bera þetta saman við umsögn frá sveitarfélaginu Hornafirði um áhrif þessarar skattlagningar á það sveitarfélag. Fyrir sveitarfélagið Hornafjörð sem eins og mörg önnur sveitarfélög hefur þurft að heyja mikla varnarbaráttu á undangengnum árum, mundu veiðigjöldin samkvæmt upphaflega frumvarpinu nema 1.300 millj. kr. Í sveitarfélaginu búa 2.143 íbúar og yrðu því veiðigjöldin á íbúa sveitarfélagsins Hornafjarðar 607 þús. kr. á hvern íbúa.

Ef við gefum okkur það að einhver ríkisstjórn léti sér koma til hugar að skattleggja slíkt samfélag um 1,3 milljarða, rúmar 600 þúsund kr. á hvern einasta íbúa, hlutfallið er enn hærra í Fjarðabyggð, væru veiðigjöld samanborið við það í höfuðborginni rúmir 72 milljarðar á Reykvíkinga. Halda hv. þingmenn að einhverri ríkisstjórn dytti það í hug að skattleggja höfuðborgina þannig? Nei. Ef við tækjum Hafnarfjörð sem dæmi væri þetta sérstök skattlagning á Hafnarfjörð upp á rúma 16 milljarða kr.

Þetta sýnir náttúrlega hvers lags ofurskattlagning og hvers lags hugarfar ríkir gagnvart atvinnulífinu, enda kom það í ljós þegar sérfræðingar fengu loksins að koma að frumvarpinu þegar það var lagt fram á Alþingi að skattlagningin var allt að 140%. Það segir okkur að þá borgar sig ekkert að standa í atvinnurekstri. Þetta sýnir okkur líka að sú fullyrðing vinstri manna að þeim mun hærri skattar sem innheimtir eru skili af sér enn þá meiri tekjum, gengur ekki upp. Einhvers staðar eru þolmörkin bæði hjá heimilum og atvinnulífinu. Það segir sig sjálft að ef launamaður er rukkaður um 100% skatt af launum sínum borgar sig ekkert að vinna, hvað þá ef skatthlutfallið er orðið 140%.

Þannig að allt helst þetta í hendur, efni frumvarpsins og undirbúningur þess. Það kom fram að talsmenn ríkisstjórnarinnar fóru rangt með þegar þetta frumvarp var kynnt. Þar var sagt að haft hefði verið ítarlegt samráð við alla helstu hagsmunaaðila, en svo kemur í ljós í nefndaráliti sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins hefur lagt hér fram, að svo er ekki. Hann spurði hvern einasta gest sem kom á fund nefndarinnar, ég held að þeir hafi verið um 70, hvort haft hefði verið samráð við þá vegna þessa frumvarps. Það kom í ljós að enginn hafði verið spurður um það frumvarp sem við ræðum hér, samráðið var ekki neitt. Ekkert samráð.

Það versta er að ég held að hv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar trúi því í raun og veru að hún hafi haft gríðarlega mikið samráð við samtök launafólks, atvinnulífið og sveitarfélögin og fleiri aðila.

Þetta er enn eitt málið þar sem ríkisstjórnin fer fram af yfirgangi gagnvart löggjafarþinginu, kemur fram með illa ígrundað og illa unnið mál án þess að hafa nær nokkurt samráð við helstu hagsmunaaðila. Það bítur náttúrlega höfuðið af skömminni þegar hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma svo hér upp og saka okkur, sem förum efnislega yfir málið, efnislega yfir allar neikvæðu umsagnir sveitarfélaga og helstu hagsmunaaðila, um að málflutningur okkar einkennist að sérhagsmunagæslu. Þvílík öfugmæli.

Það er eðlilegt að við köllum þess vegna eftir því að þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna komi hér til efnislegrar umræðu um þetta mikilvæga mál, vegna þess að eins og við höfum margsinnis bent á finnum við ekki eina einustu umsögn sem mælir með því að við samþykkjum þetta frumvarp. Það er því dapurlegt að sjá hlutskipti þingmanna ríkisstjórnarflokkanna, sem þeir hafa reyndar valið sér sjálfir, að sitja þögulir í hliðarsölum þingsins, koma ekki í þessa umræðu, ekki í eitt einasta andsvar liggur við við okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar. Þetta er sorglegt upp á að horfa. Ég vona að þetta frumvarp verði ekki samþykkt.