140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir alveg prýðilega ræðu. Á mjög skömmum tíma gerði hann grein fyrir kjarnanum í gagnrýni okkar í stjórnarandstöðunni, bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég tek undir nokkurn veginn allt sem hv. þingmaður fór yfir. Ég vil þó leiðrétta hann hvað varðar eitt atriði. Það er til ein jákvæð umsögn um það frumvarp sem við ræðum. Hún er frá samfylkingarfélagi í Suðurkjördæmi, frekar en Reykjavík suður (BÁ: Reykjanesbæ.) — Reykjanesbæ, já, sem er í Suðurkjördæmi. Ég var reyndar ósammála því á sínum tíma að hv. þingmaður færi þangað, en það er önnur saga. Allir aðrir, allir helstu sérfræðingar, allir helstu fagaðilar sem ríkisstjórnin felur sig oft á bak við, allir sem komu að málinu og umsagna var leitað hjá hafa sagt að áhrif þessa frumvarps verði mjög neikvæð.

Mér fannst merkilegt að hlusta á hv. þingmann lesa upp úr umsögnum sveitarstjórnarmanna á landsbyggðinni. Það er skiljanlegt að landsbyggðarþingmenn, jafnduglegur og hv. þm. Birkir Jón Jónsson er, dragi þetta fram því að þetta hefur gríðarlega þýðingu fyrir landsbyggðina. En hann kom líka inn á Hafnarfjörð, hann kom líka inn á suðvesturhornið. Og það er rétt að þó að við séum í minnkandi útgerðarbæ í ljósi sögunnar er engu að síður enn gert út frá þeim útgerðarstað sem Reykjavík er og ekki síður Hafnarfirði. En það sem er að gerast í auknum mæli er nú heldur betur í takt við það sem menn hafa verið að kalla eftir, þ.e. að hvetja til fleiri sprotafyrirtækja og nýsköpunarfyrirtækja og fleiri fyrirtækja á hinum ýmsu sviðum. Þar höfum við mikilla hagsmuna að gæta.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um að sveitarstjórnir á suðvesturhorninu, Hafnarfjarðarbæjar og Reykjavíkurborgar, taki ekki einu sinni afstöðu til þessa mikilvæga máls, gefi í raun bara skít í það eins og þær hafi enga skoðun á málinu, þessu gríðarlega mikla máli sem er ekki bara landsbyggðarmál, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) heldur samfélagsmál því að sjávarútvegurinn skiptir okkur öll máli.