140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:55]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Áður en ég fer í að svara spurningunni vil ég benda á að í yfirlýsingunni frá sveitarstjórnarmönnum sem birtist í Morgunblaðinu í dag finnum við þó nokkurn fjölda af bæjarfulltrúum Vinstri grænna og Samfylkingar sem skora á Alþingi að kæla þetta mál niður.

Þá kem ég að spurningu hv. þingmanns. Ég mundi nú telja að það væri óvitlaust að við reyndum að ræða okkur niður á einhverja niðurstöðu um hvað veiðigjaldið ætti að vera. Ég tel að það sé of hátt í dag. Ég hefði líka talið að við ættum að koma okkur niður á þá niðurstöðu hvernig við ættum að skipta þessu veiðigjaldi. Þá legg ég áherslu á að hluti þess skili sér í meira mæli til hinna dreifðu byggða eða sjávarbyggðanna en kveðið er á um í þessu frumvarpi.

Ég tel málið vera það vanbúið að við ættum að skipa enn eina sáttanefndina til að kæla það, fara yfir frumvarpið eins og það lítur út, og umsagnirnar. Sú nefnd sem yrði skipuð fulltrúum allra flokka og helstu hagsmunaaðila fengi ráðrúm vel fram á haustið til að fara yfir málið fram og til baka og láta reyna á það í alvöru hvort hægt sé að ná einhverri samstöðu og málamiðlun um það hvernig við ætlum að haga fiskveiðistjórnarmálum okkar til lengri tíma litið og rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Það er óásættanlegt að okkur sé boðið upp á það að ríkisstjórn, skipuð tveimur flokkum sem hafa rúmlega 20% fylgi landsmanna, skutli málinu hér inn á síðustu dögum þingsins og að okkur þingmönnum séu gefnir einungis örfáir dagar, og í andstöðu við langstærsta hluta þjóðfélagsins, til að afgreiða þetta mál í einhverjum andarteppustíl. Við þurfum að vanda miklu betur til verka.