140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:59]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Núverandi ríkisstjórn hefur nefnilega komið fram með mjög óbilgjörnum hætti þegar kemur að byggðastefnu. Í raun og veru hefur byggðastefnan ekki verið nein að mínu viti. Hv. þingmaður nefndi að á mörgum stöðum á landsbyggðinni borgar fólk tvisvar sinnum hærri húshitunarkostnað. Búið er að hækka álögur og skatta á eldsneyti eins og við þekkjum. Hæsti virðisaukaskattur í heimi á eldsneyti er á Íslandi. Við skulum heldur ekki gleyma þeim byggðarlögum þar sem framhaldsnám er ekki í boði, þar sem fólk þarf að senda ung börn sín að heiman til framhaldsmenntunar. Við þekkjum það hvernig styrkur til náms hefur hlutfallslega dregist saman á undanförnum árum. Og hv. þingmaður nefndi flutningskostnaðinn.

Það hefur þess vegna verið gleðilegt fyrir mig sem þingmann Norðausturkjördæmis að fara um kjördæmi mitt og sjá uppganginn í sjávarbyggðum í tengslum við sjávarútveginn. Loksins þegar við erum farin að sjá uppbyggingu og fjárfestingu í sjávarútvegi, meðal annars vegna þess að uppsjávarveiði hefur verið að aukast, þá tekur ríkisstjórnin sig til og hefur núna í þrjú ár haldið þeirri atvinnugrein í heljargreipum vegna óvissunnar um framtíðarfyrirkomulag rekstrarumhverfis þessarar undirstöðuatvinnugreinar.

Nú er barnið komið í heiminn. Ljóst er að ríkisstjórnin ætlar að stórskattleggja sjávarbyggðirnar enn frekar ofan á þann niðurskurð sem við höfum þurft að horfa upp á í mörgum samfélögum, í velferðarþjónustunni og í heilbrigðismálunum. Ríkisstjórnin kallar sig reyndar norræna velferðarstjórn, slík öfugmæli sem það eru nú, en þá á að setja fram aukaskatt á sjávarbyggðirnar um 15 milljarða kr.

Ég spyr hv. þingmann: Er ekki komið nóg?