140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði um í ágætri ræðu sinni um vélvæðingu og tækninýjungar í sjávarútvegi. Ég vil benda honum á það að á bak við vélvæðingu og tæknivæðingu er mannauður; þekking, menntun og reynsla þeirra manna sem starfa í sjávarútvegi. Það er gífurlega mikill mannauður í sjávarútvegi og ekki síður í markaðssetningunni.

Ég vil spyrja hv. þingmann sem er áhugamaður um eignarrétt, sem er reyndar í stjórnarskrám flestra landa, þar á meðal í stjórnarskrá Íslands, hvað það þýðir í lögum um stjórn fiskveiða sem í gildi eru núna og sett voru árið 2006 þegar okkar ágæti flokkur var við stjórn, þar sem stendur í 1. gr. að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu í sameign þjóðarinnar. Hvað þýðir þetta? Er þetta í samræmi við eignarréttarhugmyndir hv. þingmanns?

Sjálfstæðisflokkurinn tók þátt í starfi sáttanefndar. Þar var ákveðið að gera samninga til langs tíma við ríkið um afnot af fiskimiðum. Er hv. þingmaður sammála mér um að í því hafi Sjálfstæðisflokkurinn gert mistök? Það hafi verið mistök að semja um notkun á fiskimiðunum vegna þess að um leið og maður semur við einhvern um notkun á einhverju er maður að viðurkenna að sá hinn sami sé eigandi. Þarna voru eiginlega allir nytjastofnar á Íslandsmiðum ríkisvæddir, ekki þjóðnýttir, heldur ríkisvæddir, af því að ég geri mikinn mun á því.

Svo heyrðist mér hv. þingmaður agnúast út í framsal. Getur það verið að hann vilji hafa takmarkanir á framsali? Nei, þá er það misskilningur.