140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er ekki alveg sáttur við það hvernig hv. þingmaður talar sig frá sameign þjóðarinnar vegna þess með sömu rökum gæti maður sett í lög að allar bújarðir væru sameign þjóðarinnar, allt íbúðarhúsnæði væri sameign þjóðarinnar, af því ríkið hefur lögsögu yfir því — ég nefni skipulagsvald, brunavarnir og annað slíkt. Mér finnst hv. þingmaður ganga nokkuð langt í að útskýra þetta hugtak, „sameign þjóðarinnar“. Í mínum huga er ekki hægt að útskýra það vegna þess að það hefur enga merkingu.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór í sáttanefndina og var að semja um eitthvað til sátta og viðurkenndi að semja við ríkið til sátta, var gert ákveðið samkomulag og um leið viðurkennt að ríkið ætti einhvern þátt í eigninni. Nú er komin ný staða og aftur eru menn að semja. Getur ekki verið að við séum alltaf að semja okkur lengra og lengra frá hinum raunverulega eignarrétti sem menn telja ástæðu til að hafa í stjórnarskránni? Endum við ekki á mjög slæmum villigötum og í erfiðleikum sem verður mjög erfitt að vinda ofan af þegar það þarf að fara að einkavæða sjávarútveginn upp á nýtt þegar búið er að rústa honum? Það er nefnilega hárrétt sem hv. þingmaður sagði að þegar arðsemi atvinnugreinarinnar minnkar, minnkar arðsemi þjóðarbúsins, þá þarf að fella gengið eða við sitjum uppi með atvinnuleysi og gjaldþrot.