140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað þjóðareignarhugtakið varðar árétta ég þá skoðun mína að það sé í raun einhvers konar dulbúningur á orðinu ríkiseign. Þannig hefur það verið notað í umræðu þeirra sem hafa barist fyrir því. Tökum sem dæmi jarðeignir á Íslandi. Við getum hugsað okkur að segja í upphafi á lagabálki að Ísland sé sameign íslensku þjóðarinnar. Þó er það svo þrátt fyrir þá sameign íslensku þjóðarinnar á Íslandi að bændur fara með séreignarrétt á nýtingu á ákveðnum hlutum þess. Þannig er það fyrirkomulag sem við búum við. Það hreyfir ekki við lögsöguvaldi ríkisins. Ríkið getur og hefur til þess rétt að takmarka nýtingarrétt bændanna með ákveðnum hætti. Við getum sett alls konar lög um það, en nýtingarrétturinn er til staðar.

Hvað varðar húsnæði manna er það áhugaverð ábending. Ríkið setur meira að segja líka alls konar reglur um hvernig menn geta nýtt hús, en það sem mikilvægast er og býr til eignarréttinn hjá mönnum, þeim sem hafa byggt sér hús eða keypt, að ríkið ver það með lögum og lögregluvaldi að aðrir geti til dæmis gengið inn í þau hús og tekið sér það bólfestu þvert gegn vilja húsráðanda. Auðvitað getum við ekki haft það þannig að þeir einir gætu búið í húsum sínum sem hefðu til þess afl að verja húsnæði sitt. Ríkið kemur þar til og þar með verður húsnæðið verðmætt vegna þess að það er varið með lögum fyrir ágangi annarra.

Það getur því farið vel saman og fer saman hlutverk ríkisins, fullveldi þess og yfirráðaréttur yfir auðlindum annars vegar og hins vegar nýtingarréttur einstaklinga sem byggður er á hefð, á nýtingarhefð sem grundvallast á því að þeir einstaklingar hafa lagt fram fjármuni sína og tíma og tekið áhættu til þess að gera auðlindina verðmætari.