140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með þessa fundarstjórn, því við höfum farið fram á að fá að vita, og það er skráð í þingtíðindi, hvað hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði hér áðan og forseti gerði athugasemd við. Við höfum í fyllstu vinsemd farið fram á við frú forseta að hún útskýri hvaða orð hv. þingmaður viðhafði. Ég man ekki eftir því í svipinn, frú forseti, frá því ég settist á Alþingi að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafi fengið annað eins tiltal frá virðulegum forseta, það er alla vega teljandi á fingrum annarrar handar, vegna þess að hv. þingmaður hefur farið mjög hófsömum orðum um störf og stefnu annarra stjórnmálamanna sem er kannski þvert á það sem aðrir stjórnmálamenn, til að mynda hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, hafa gert.

Ég fer því fram á það við frú forseta að hún útskýri og rökstyðji ákvörðun sína, vegna þess að mér finnst það alvarlegt þegar hæstv. forseti setur ofan í við þingmenn. Að sjálfsögðu þarf frú forseti að rökstyðja mál sitt.