140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég svari strax síðustu spurningu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, hvort hægt sé að ná sátt um frumvarpið eins og það er — nei, ekki eins og það er. Þess vegna erum við að ræða það hér mjög gaumgæfilega og fara yfir það og þær forsendur sem menn gefa sér, hversu galnar þær eru fyrir utan, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að engar umsagnir um málið styðja það aðrar en flokkspólitískar umsagnir sem eru í rauninni bara til heimabrúks, eins og menn segja, þ.e. umsögnin frá Samfylkingarfélaginu í Reykjanesbæ.

Ég tel hins vegar að menn greini hér ákveðinn tón. Ef menn sitja hér — ég held að ég sé búin að hlusta á 95% af ræðunum — þá greina þeir ákveðinn sáttatón í þessu máli. Ég greini það að við, þ.e. bæði stjórn og stjórnarandstaða, getum náð ákveðinni niðurstöðu í málinu sem verður til farsældar fyrir það í heild, fyrir þjóðina og fyrir sjávarútveginn. Allt þetta fer saman.

Talandi um að vera bjartsýn og vera með ákveðna von í brjósti þá ég bind enn vonir við það, þó að ég sé ekki sammála forustumönnum stjórnarflokkanna í pólitík, að menn hafi enn ákveðna skynsemi til að bera að setjast niður og fara yfir þetta. Ég sagði það áðan í ræðu minni að ég teldi mikilvægast af öllu, með fullri virðingu fyrir öðrum sem koma að málinu, að formenn stjórnmálaflokkanna ræddu saman, reyndu að komast að niðurstöðu um ákveðinn ramma sem við í þinginu ættum síðan að hafa getu, vilja og löngun til að ná fram og samþykkja.

Ég segi nei, ekki þetta mál, en já við því að setja málið til hliðar, byggja á ákveðnum forsendum sem við höfum gefið okkur í gegnum tíðina varðandi veiðigjöld og greiðslu fyrir aðgang að auðlindinni og ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í eigu þjóðar.