140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Einn helsti sérfræðingur okkar, Ragnar Árnason hagfræðingur, dregur það fram mjög skýrt í sinni umsögn sem ríkisstjórnin hlustar ekki á frekar en áður því að sú umsögn hentar ekki þeirra veruleika, að umræðan á ekkert að vera um veiðigjald heldur um skatta. Þetta eru eftir á greiddir skattar, eins og hann segir, með leyfi forseta:

„Þessi hluti skattsins er því eins konar eftir á greiddur stighækkandi tekjuskattur. Skattinum í heild er síðan dreift á aflamark/fiskafla. Þess vegna virkar hann eins og framleiðslugjald eða veltuskattur.“

Þetta er hrein og klár aukin skattheimta og ekkert annað, sama í hvaða PR-búning menn vilja setja þetta. Reynsla okkar sjálfstæðismanna af brjálæðislegri skattheimtu er sú að allt dregst saman, allir halda að sér höndum og fyrir vikið minnkar kakan sem er til skiptanna fyrir öll okkar.