140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gat þess síðan að sum útgerðarfyrirtæki hefðu tapað mikið á fjárfestingum og þar af leiðandi væru fjárfestingar ekki góðar. Nú hef ég margoft fært rök fyrir því að veila er í hlutabréfaforminu sem var misnotuð í stórum stíl á Íslandi. Þess vegna hrundi þetta en ekki vegna þess að fjárfestingarnar væru í eðli sínu slæmar. Fjárfestingar eru almennt ekki í eðli sínu slæmar, ég tel að þær séu góðar.

Ég spyr hv. þingmann um eignarréttinn. Nú er lífeyrisréttur talinn vera eignarréttur, það eru ákveðin réttindi en ekki raunveruleg eign og það þarf að reikna hann út. Ég spyr hvort hann sé þess eðlis að ríkið gæti til dæmis tekið lífeyrissjóðina yfir, B-deildina í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, hætt að borga samkvæmt þeim rétti o.s.frv. — hvort þetta sé allt saman komið á hreyfingu.