140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Norðdahl fyrir hans ágætu ræðu. Mig langar að spyrja hann hver sé skoðun hans, og þá kannski fyrst og síðast sem lögfræðings, á því sem fram hefur komið og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi hér, að veiðigjaldið, eins og það er lagt fram, sé í raun og veru skattur og með því að setja almennt veiðigjald og sérstakt veiðigjald sé hugsanlega verið að fara gegn stjórnarskránni. Samhliða þeirri spurningu vil ég spyrja hvort hv. þingmaður, sem jafnframt er lögmaður, telji að það standist kröfur um meðalhóf og jafnræði, eins og menn hafa rætt um, að leggja á sérstakt veiðigjald á einstaka gjaldskylda aðila. Nú vil ég taka fram, virðulegur forseti, svo að það fari ekki á milli mála að sú sem hér stendur er hlynnt því að veiðigjald verði lagt á en vill að aðferðafræðin sem beitt er sé í samræmi og sátt (Forseti hringir.) í stað sundrungar. En ég bið hv. þingmann um að svara þessum spurningum mínum.