140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:19]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef þetta snýst um það hvort þetta eru slagorð eða orð með djúpa merkingu látum við það liggja milli hluta. En þingmaðurinn á að vita það að ég var ekki að tala um einkaeignarréttindi, ég var að tala um einkaleyfi sem kvótakerfið er. Kvótakerfið byggist á einkaleyfi sem gefið er útgerðarmönnum til þess að mynda auðlindarentuna. Það hefur ekkert að gera með eignarréttinn á því eða annað slíkt.

Mig langar til þess að halda áfram með spurningu mína frá því áðan og hv. þingmaður kaus að snúa út úr. Nú var verið að tilnefna íslenska fiskveiðistjórnarkerfið í núverandi mynd til verðlauna af einni af undirnefndum Sameinuðu þjóðanna fyrir hvað það væri hagkvæmt og færi saman við vernd á fiskstofnum. (Forseti hringir.) Vill hv. þingmaður útskýra fyrir mér hvernig þetta fer saman við að draga úr þeirri hagkvæmni sem ég talaði um áðan?