140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:20]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þarna erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála. Útvegurinn er og þarf að vera mjög hagkvæmur. Eins og ég fór yfir í ræðu minni höfum við þessa aðferð við nýtingu á auðlindinni að úthluta til þess nýtingarleyfum, við getum kallað þau einkaleyfi. Þessi leyfi skapa óbein eignarréttindi eins og ég fór líka yfir í ræðu minni. Þetta er allt saman tímabundið og er gegn gjaldi. Þessu er ég algjörlega sammála.

En til þess að við virðum það að þetta verði ekki einkaréttindi tiltekinna einstaklinga í samfélaginu um alla framtíð er hluti af þeim frumvörpum sem hér eru lögð fram byggður þannig upp að þau tryggja nýliðun til að skapa mótvægi við leyfin sem gefin eru út þannig að fleiri komist að og duglegir og útsjónarsamir útgerðarmenn komist á sjó. (TÞH: Segðu að þú treystir þér ekki til að svara þessari spurningu.) Ég hef svarað spurningu þingmannsins eins og hægt var að skilja hana mjög vel (Forseti hringir.) og betur en hún var lögð upp, herra þingmaður.