140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta yfirferð um þetta mál. Það er auðvitað vandi þegar við erum að tala um svona margslungið mál hvar við eigum eiginlega að byrja og hvar við eigum að reyna að afmarka okkur því að það er ljóst mál að á þeim skamma tíma sem við höfum í þessum ræðum getum við ekki farið yfir málið í heild sinni.

Ég ætla þess vegna í þessu stutta andsvari núna að víkja að máli sem mér fannst hv. þingmaður ræða mjög skipulega, þ.e. þegar hún velti fyrir sér hvort um væri að ræða skatta eða gjöld. Ég er sammála hv. þingmanni og í nefndaráliti okkar hv. þm. Jóns Gunnarssonar komumst við eindregið að þeirri niðurstöðu að í frumvarpinu sé alls ekki um gjaldtöku að ræða í hefðbundnum skilningi þess hugtaks heldur um fullkomna skattlagningu. Við vísum m.a. í álit sem Lex lögmannsstofa vann fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna og segir um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Þannig gefur augaleið að í frumvarpinu er gengið út frá því að veiðigjöldin séu skattur í stjórnskipulegum skilningi. Er það mat undirritaðra að veiðigjöldin svo sem þau eru ráðgerð í frumvarpinu séu skattur í lagalegum skilningi en með skatti er átt við greiðslu sem hið opinbera hefur með einhliða ákvörðun knúið tiltekinn hóp einstaklinga eða lögaðila til að greiða án sérgreinds endurgjalds frá hinu opinbera.“

Þetta er í samræmi við málflutning hv. þingmanns. Ég hef velt því dálítið fyrir mér af hverju menn leggja af stað með svona stórt frumvarp um svo stórt mál og reyna að halda því fram að það sé frumvarp um gjaldtöku en ekki um skattlagningu, því að það er það svo sannarlega. Þetta ætti auðvitað að heita frumvarp til laga um veiðiskatta, þ.e. í stað veiðigjalda í frumvarpinu ætti að standa veiðiskatta.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort við séum ekki sammála um þetta atriði og hvort hún hafi skýringar á því hvers vegna ríkisstjórnin kýs að reyna að blekkja sig áfram með þetta mál með því að nota svona hlutlausara hugtak eins og gjöld í staðinn fyrir skatta.