140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning og alveg í samræmi við það sem ég fór yfir í ræðu minni. Það virðist vera sem um fullkomið þekkingarleysi sé að ræða, að frumvarpshöfundar og ríkisstjórnin þekki ekki greinarmuninn á sköttum og gjöldum. Það er augljóst að farið er úr einu í annað og skattar, auðlindagjald eða veiðigjöld notað sitt á hvað í þessu frumvarpi. Í eðli sínu um skattlagningu að ræða.

Þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spyr mig um hvað ríkisstjórnin sé að fara með þessu þá grunar mig að þetta snúi að þeirri kosningabaráttu sem hefur verið í sambandi við að breyta stjórnarskránni og því að náttúruauðlindir skuli vera í þjóðareign — þjóðareign er óskilgreint samkvæmt lögum — og að renta skuli koma af auðlindunum sem renni til þjóðarinnar, en þá er ekki hægt að nota orðið skattar því að þá verður þetta að vera auðlindagjald sem rennur til þjóðarinnar.

Eins og ég fór yfir í ræðu minni þá verður auðlindagjald að vera afmarkað til sérstakra verkefna og ríkið má ekki taka neitt af því og nota í önnur verkefni, eins og ég vísaði til í áliti umboðsmanns Alþingis. En séu þetta hreinir skattar, eins og kemur fram í áliti 1. minni hluta atvinnuveganefndar í því sem hv. þingmaður las upp úr lögfræðiáliti frá Lex lögmannsstofu, þá er ríkinu frjálst að ráðstafa þeim sköttum eins og því sýnist og er framkvæmdarvaldið þá raunverulega óbundið af því í hvað það fjármagn fer. Það gæti þess vegna notað skattinn til þess að borga niður barnabætur eða hvað eina, jafnvel borgað atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) um stjórnarskrána, sem dæmi.