140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú mætti auðvitað hugsa sér að þetta sé vanþekking, eins og hv. þingmaður sagði, af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég hefði ímyndað mér það fyrir fram að ef ríkisstjórnin þekkti inn á eitthvað væru það skattar því að ríkisstjórnin hefur náttúrlega dundað sér við að hækka skatta allt þetta kjörtímabil og mætti kannski tala um að þar séu þó alla vega vanir menn á ferð. Þess vegna kemur það enn meira á óvart að þetta hugtak skuli vera misnotað með þessum hætti.

Ég hygg að ástæðan sé miklu frekar sú að hæstv. ríkisstjórn hafi treyst því að menn mundu smám saman fara að tileinka sér þetta miklu hlutlausara hugtak, veiðigjald, eins og hefur komið svo mikið fram í umræðunni, í stað þess að tala um veiðiskatt sem er réttnefni. Veiðiskattur hefur dálítið neikvæðari ímynd í hugum flestra en þannig er það engu að síður.

Við hv. þingmaður gætum kannski, því að við viljum stundum þegar vel liggur á okkur, á góðviðrisdögum, vera jákvæð í garð ríkisstjórnarinnar, sagt að almenna gjaldið, svokallaða, kæmist nálægt því að vera gjald því að það er hugsað til þess að borga Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu og því öllu og ef gjaldið væri nákvæmlega reiknað miðað við útgjöld þessara stofnana mætti færa fyrir því rök að það væri gjald. Hitt gjaldið er hins vegar klárlega skattur og ríkisstjórnin lítur í rauninni á það sem skatt því að áður en við erum búin að ákveða þetta mál á þingi, áður búið var að mæla fyrir málinu til 2. umr. var ríkisstjórnin farin að eyða þessum peningum fyrir fram, búin að slá alla víxlana, alla kosningavíxlana sem eiga að fara fram með sérstökum ábekingi úr öðrum flokki sem ég ætla ekki að nefna með nafni. Þá er málið náttúrlega orðið augljóst öllum, um er að ræða skatt vegna þess að þessi skattur á að fara til þeirra verkefna sem nú þegar er búið að eyrnamerkja.

Það sem ríkisstjórnin hefur sagt er síðan önnur saga, að hún vilji ekki eyrnamerkja til ákveðinna skatta. En allt má brjóta í þágu góðra kosningaloforða eins og menn þekkja frá ríkisstjórninni.