140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er að velta fyrir mér hvort hér hafi ekki orðið tæknileg mistök. Ég er að ræða nefndarálit um frumvarp til laga um veiðigjöld og velti fyrir mér hvort ekki ætti standa „frumvarp til laga um landsbyggðarskatt“ vegna þess að þetta frumvarp felur ekkert annað í sér en aukinn landsbyggðarskatt.

Ég hef hér stóran og mikinn bunka af umsögnum frá sveitarstjórnum og aðilum úr Norðausturkjördæmi. Norðausturkjördæmi er jú það kjördæmi sem er lengst frá Reykjavík og mig langar að taka örlítil dæmi úr umsögnum frá litlum sveitarfélögum.

Fyrst er álit frá sveitarstjórn Grýtubakkahrepps um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjalda. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á því að slík gjaldtaka sem boðuð er í frumvörpunum er fyrst og fremst landsbyggðarskattur. En það er vísasta og skjótvirkasta leiðin til að leggja fjölmargar sjávarbyggðir í rúst og er Grenivík engin undantekning. Einnig mun ríkissjóður finna verulega fyrir skaðanum þegar búið verður að knésetja sjávarútveginn.“

Virðulegi forseti. Hér er annað álit: „Umsögn Langanesbyggðar um þingmál nr. 658 um frumvarp til laga um veiðigjöld.“ Langanesbyggð er fyrir þá sem ekki vita á norðausturhorni landsins. Svæðið þar um kring hefur lengi verið talið kalt í atvinnulegu tilliti. Þar segir, með leyfi forseta:

„Auðlindagjald er landsbyggðarskattur.

Sú gríðarlega harkalega og í raun ofsafengna skattlagning sem boðuð er í frumvarpinu mun á skömmum tíma ríða íslenskum sjávarútvegi að fullu. Skattlagningarhlutfallið, þ.e. 60% af metinni auðlindarentu, síðan hækkar í þrepum upp í 70%, er að því er virðist heimt úr lausu lofti því að hvergi kemur fram eða eru færð rök fyrir hvers vegna miðað er við að svo hátt hlutfall af auðlindarentunni renni í ríkissjóð. Þessir ofurskattar verða fyrst og síðast sóttir til landsbyggðarinnar líkt og svo gjarnan áður. Það er reynsla sjávarbyggða á landsbyggðinni að það skattfé sem sótt er í vasa íbúa á landsbyggðinni finnur ógjarnan leiðina út á land á ný.“ — Því miður. — „Frumvarpið yrði þannig ekkert annað en áfall fyrir landsbyggðina sem hefur borið skerðingu veiðiheimilda undangenginna ára á herðum sér sem og að greiða fyrir hið meinta hagvaxtarskeið á bankaárum höfuðborgarsvæðisins.“

Í framhjáhlaupi, virðulegi forseti, vil ég geta þess að þetta er heimabyggð hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann er ráðherra alls atvinnulífs á landinu fyrir utan kannski stóriðjuna.

Svo er ályktun frá Norðurþingi. Ég ætla að drepa örstutt niður í því áliti, með leyfi forseta:

„Við undirrituð vörum Alþingi sterklega við því að samþykkja fyrirliggjandi frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

Greinargerð óháðra sérfræðinga, sem fylgir frumvörpunum og sem unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, ætti að hvetja löggjafann til að staldra við og ígrunda gaumgæfilega áhrif lagasetningarinnar á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja á sjávarbyggðir landsins.“

Svo er álit frá Vopnafjarðarhreppi, með leyfi forseta:

„Hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps varar Alþingi sterklega við því að samþykkja óbreytt fyrirliggjandi frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, mál nr. 657, og frumvarp til laga um veiðigjöld, mál nr. 658.

Hreppsnefnd telur nauðsynlegt að áhrif frumvarpanna verði reiknuð út af hlutlausum aðilum og niðurstöður þeirra útreikninga kynntar opinberlega áður en lengra verður haldið. Meðal annars verði skoðuð áhrif skattlagningar, tímalengdar nýtingarleyfa, stækkun potta, takmörkun á viðskiptum með aflamark, skattlagning viðskipta með aflahlutdeild og önnur þau áhrif tengd umræddum breytingum sem geta haft áhrif á atvinnulíf á Vopnafirði, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum.“

Svo er álit frá Akureyrarbæ þar sem lagt er til að farið sé vandlega yfir áhrif frumvarpanna áður en þingmenn taki afstöðu til þeirra.

Svo er álit frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Þar er vitnað í opinn fund sem haldinn var á Akureyri. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skýrt kom fram að sú mikla óvissa sem fylgt hefur langvinnri umræðu um breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegs er mjög vond fyrir byggðaþróun og uppbyggingu í Eyjafirði. Óvissan fer verst með sjávarbyggðir og kom skýrt fram hjá fulltrúum fiskverkafólks að það væri uggandi um stöðu sína og lífsafkomu.“

Virðulegi forseti. Mig langar að endurtaka síðustu línuna:

„Óvissan fer verst með sjávarbyggðir og kom skýrt fram hjá fulltrúum fiskverkafólks að það væri uggandi um stöðu sína og lífsafkomu.“

Svo er álit frá bæjarfulltrúum og bæjarstjórn Fjallabyggðar, með leyfi forseta:

„Við undirritaðir bæjarfulltrúar og bæjarstjóri Fjallabyggðar vörum Alþingi sterklega við því að samþykkja fyrirliggjandi frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.“

Svo segir neðar í álitinu:

„Undirritaðir telja að þau varnaðarorð sem fylgja frumvörpunum séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að „umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkun útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingargetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með enn minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er.“

Langt og ítarlegt álit er frá bæjarráði í Fjarðabyggð. Þar er vakin athygli á því að sjávarútvegsfyrirtækin í Fjarðabyggð séu ein af burðarásunum í atvinnulífi sveitarfélagsins. Með leyfi forseta, segir:

„Hjá þremur stærstu fyrirtækjunum, Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði, Eskju á Eskifirði og Síldarvinnslunni á Norðfirði, starfa um 450 manns. Þessi fyrirtæki eru sérstaklega sterk í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski. Að auki eru tugir starfa í afleiddum störfum í kringum greinina, m.a. á netaverkstæðum, nótastöðvum, vélsmiðjum og rafmagnsverkstæðum.“

Ég vek athygli á síðustu línunni:

„Að auki eru tugir starfa í afleiddum störfum í kringum greinina, m.a. á netaverkstæðum, nótastöðvum, vélsmiðjum og rafmagnsverkstæðum.“

Virðulegi forseti. Þetta eru dæmi um álit og álitsgerðir frá sveitarstjórnum í Norðausturkjördæmi. Norðausturkjördæmi spannar frá Djúpavogi norður til Siglufjarðar. Í hverri einustu álitsgerð eru varnaðarorð um að ef þessi frumvörp verði samþykkt komi þau til með að hafa mikil áhrif á atvinnulíf úti á landi, í Norðausturkjördæmi, skerða tekjumöguleika sveitarstjórnanna, minnka tekjur fiskverkafólks og sjómanna og stuðla að óvissu í sjávarútvegi.

Því hefur verið haldið fram að við í Framsóknarflokknum séum sérstakir talsmenn LÍÚ. Ég hafna þeim fullyrðingum algjörlega. Ég vil hins vegar vera talsmaður fiskverkakvenna og -karla, sjómanna og allra þeirra sem hafa lífsviðurværi sitt af sjávarútvegi. Það vill svo til að flest af þessu fólki býr og ætlar sér að búa á landsbyggðinni.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þeir sem leggja þessi frumvörp fram séu fyrst og fremst þingmenn Norðausturkjördæmis, þ.e. formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Kristján L. Möller, með fyrsta þingmann kjördæmisins, hv. þm. Björn Val Gíslason, sér við hlið — ég vona að þau leiðu mistök verði ekki gerð aftur í Norðausturkjördæmi — auk hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Þessir aðilar bera ábyrgð á þeim frumvörpum sem hér eru til umræðu.

Það er líka undarlegt í ljósi þess að þegar ákveðið var að skera niður í heilbrigðismálum Íslendinga um 4% var ákveðið að skera meira niður á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í Norðausturkjördæmi. Upphaflegu tillögurnar snerust um að skorið yrði niður í Heilbrigðisstofnun Þingeyinga um 40% og um 20–30% í Heilbrigðisstofnun Austurlands og í Heilbrigðisstofnuninni Fjallabyggð. Þessu var stýrt af þingmönnum Norðausturkjördæmis. Reyndar var Framsóknarflokkurinn næststærsti flokkur en sökum hringekjunnar fékk Samfylkingin þrjá þingmenn þar jafnvel þó að hún væri 4–5% fyrir neðan okkur framsóknarmenn í síðustu kosningum. Þessi eini maður gerir það að verkum að sú ríkisstjórn sem hefur lagt til þessi frumvörp lifir, því miður.

Nú skyldi maður ætla að þessi frumvörp væru í anda þess sem Samfylkingin og Vinstri grænir höfðu rætt um fyrir kosningar, að gjörbylta kvótakerfinu, en svo er ekki. Af hverju? Jú, vegna þess að bæði Samfylkingin og Vinstri grænir hafa haldið uppi ómálefnalegum og órökstuddum málflutningi um kvótakerfi Íslendinga í mörg herrans ár, því miður. Þegar þau komust til valda sáu þau að ef þau mundu fara í þær róttæku breytingar sem þau boðuðu samkvæmt stefnu sinni hefði það haft töluvert miklu meiri afleiðingar en þó þessi frumvörp hafa. Í staðinn fyrir að setjast niður og viðurkenna að málflutningur þeirra hefði verið ósanngjarn, rangur, villandi og með upphrópunum ákváðu þau að skattleggja sjávarútveginn, setja á landsbyggðarskatt.

Hér er athyglisvert álit, virðulegi forseti, frá doktor Níelsi Einarssyni, forstöðumanni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, sem er staðsett við Háskólann á Akureyri. Þar segir á bls. 8, með leyfi forseta:

„Almennt má segja að frumvarpið boði fremur flókið og þunglamalegt kerfi þar sem ráðherra tekur sér mikið vald og Fiskistofa fær aukið hlutverk sem „lögregla fiskveiðistjórnarkerfisins“.“

Virðulegi forseti. Mig langar til að staldra við þessa setningu vegna þess að á Alþingi var samþykkt þingsályktunartillaga sem byggði á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að við ættum að færa völdin frá framkvæmdarvaldinu til Alþingis, frá ráðherrum til Alþingis. Í þessum lagafrumvörpum er verið að færa vald til ráðherra eins og doktor Níels Einarsson bendir réttilega á. Hann bendir líka á að Fiskistofa fái aukið hlutverk sem lögregla fiskveiðistjórnarkerfisins. Þá erum við kannski komin að kjarna málsins, að þeir sem aðhyllast sósíalisma og kommúnisma — þeir vilja eflaust gera greinarmun þar á milli — hafa yfirleitt alls staðar í heiminum aukið eftirlit, eftirlit með atvinnustarfsemi og borgurum.

Svo segir áfram í álitinu, virðulegi forseti:

„Byggðastofnun virðist alfarið lenda utan garðs og án verkefna.“ — Ef það er einhver stofnun sem við ættum að styðja við og styrkja er það Byggðastofnun. — „Frumvarpið gengur langt í að láta eftir þrýstingi frá fjármálastofnunum og kvótaþegum. Það virðist endurspegla þvingaða aðlögun að pólitískum og fjármálalegum raunveruleika og er málamiðlun af því tagi sem varla verður að haldbærri sáttargjörð. Þar sem ekki er um að ræða grundvallarbreytingu eða eðlisbreytingu á því kerfi sem byggir á einkavæðingu almenninganna og þar sem þeir aðilar sem þegið hafa forréttindi í formi aflaheimilda halda þeim áfram er ósennilegt að ný lög slái á þá djúpstæðu gagnrýni sem kvótakerfið hefur lengi sætt.

Það er rétt, virðulegi forseti, að kvótakerfið er umdeilt og það hefur fengið á sig djúpstæða gagnrýni. Það er þess vegna sem við í Framsóknarflokknum ákváðum að koma fram með heildstæða stefnu í sjávarútvegsmálum. Þar tölum við vissulega um potta. Þessir pottar eru útfærðir með allt öðrum hætti en í núverandi tillögum. Við tölum um auðlindarentu en segjum að hún eigi að vera hófleg og að það sé mikilvægt að hluti hennar renni til greinarinnar sjálfrar, til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstarfa. Nauðsynlegt sé að nýir aðilar geti sótt um styrk til nýsköpunar og rannsókna til að auka þekkingu og nýtingu á auðlindinni. Þá er lagt til að hluti gjaldsins renni aftur til þess landsvæðis þar sem auðlindarentan verður til. Þetta eru lykilatriði, virðulegi forseti. Við leggjum til að ef taka á skatt af landsbyggðinni renni þeir fjármunir aftur til þess byggðarlags sem þeir koma úr. Þetta er grundvallaratriði til mótvægis því að annars mætti halda því fram að um væri að ræða viðbótarskattlagningu, sérstaklega á landsbyggðina. Það er akkúrat það sem hér er verið að gera, virðulegi forseti, það er verið að leggja á sérstakan landsbyggðarskatt.

Ég hef farið víða um kjördæmið, komið á alla þá borgarafundi sem haldnir hafa verið fyrir utan einn, þegar ég fékk flensu og missti af borgarafundi sem haldinn var í Fjallabyggð um heilbrigðismál, og borgarafundirnir hafa verið ansi margir. Í Norðausturkjördæmi hafa verið haldnir borgarafundir um sjávarútvegsmál núna undir það síðasta. Síðan hafa verið haldnir borgarafundir um niðurskurð í heilbrigðismálum. Haldnir hafa verið borgarafundir um samgöngubætur og mikilvægi þeirra.

Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin er með nákvæmlega allt niður um sig í Norðausturkjördæmi. Þeir þingmenn sem eru núna innan stjórnarflokkanna eru farnir að tala eins og við í stjórnarandstöðunni, algjörlega valdalausir. Það er skandall að Norðausturkjördæmi skuli eiga einn ráðherra, virðulegur forseti, er algjör skandall.

Af hverju skyldum við hafa sett kvótakerfið á, þetta umdeilda kvótakerfi? Jú, vegna þess að menn veiddu og veiddu. Það var orðið svo slæmt að fiskurinn í sjónum var að hverfa og við vorum nánast ekki að ná neinni nýtingu úr sjávaraflanum. Fyrrverandi þingmaður og ráðherra, Jón Kristjánsson, sagði mér frá því að fyrir austan hefðu menn vaðið fiskinn upp í hné en nánast engin verðmæti fengið fyrir hann. Frystihúsin voru full af fiski en hann var verðlaus. Þegar menn standa frammi fyrir slíku vandamáli verður einfaldlega að takmarka aðgang að auðlindinni.

Færeyingar hafa stundað hið svokallaða sóknardagakerfi þar sem öllum er trillað út á svipuðum tíma og svo fiska menn sem óðir séu óháð nýtingu og því hvert virði fisksins er. Svo er bara hætt. Þetta er það kerfi sem Samfylkingin lagði til eitt sinn að yrði lagt á á Íslandi.

Farin var sú leið, og hún var erfið, að þeir sem höfðu veitt fiskinn úr sjónum fengu til þess kvóta eða heimildir til að veiða áfram. Hugsunin var líka sú að hér þyrftu að vera sterk og öflug sjávarútvegsfyrirtæki. Við Íslendingar erum ekki eina þjóðin sem stundar fiskveiðar. Við eigum í harðri samkeppni við aðrar þjóðir eins og Rússa, Norðmenn og Kanadamenn um aðgang að mörkuðum. Þar stöndum við Íslendingar okkur vel. Af hverju? Jú, vegna þess að við eigum öflug sjávarútvegsfyrirtæki.

Eftir umræðunni að dæma mætti halda að hér væru þrjú, fjögur sjávarútvegsfyrirtæki í eigu kvótakónga sem lúrðu á milljónum króna. Sannleikurinn er sá að hér eru á annað hundrað sjávarútvegsfyrirtæki, misjafnlega stödd, misjafnlega rekin, en þau eiga það sammerkt að halda uppi atvinnulífi hringinn í kringum landið. Auðvitað hafa einhverjar sjávarbyggðir orðið út undan í hagræðingu og samþjöppun sem óhjákvæmilega varð að vera, því miður, en ef menn halda að hægt sé að snúa aftur og breyta því eru þeir á miklum villigötum. Ef við lítum til annarra landa hefur þessi þróun líka átt sér stað þar.

Þegar ég fer um kjördæmi mitt og kem til þeirra byggða sem eiga undir högg að sækja biður fólk ekki um ölmusu frá ríkinu. Það segir hins vegar: Skapið okkur nauðsynleg samkeppnisskilyrði. Samgöngur þurfa fyrst og fremst að vera góðar. Þær eru nánast án undantekningar lykilatriði hjá fólki úti á landi. Samgöngur verða að vera í lagi. Síðan er rætt um internet og GSM-samband. Því miður er það ekki enn komið í lag. Flutningur á raforku er víða bágborinn. Hvort sem menn trúa því eða ekki þá eru fiskimjölsverksmiðjur eins og á Þórshöfn keyrðar áfram með steinolíu að hluta vegna þess að sú lína sem flytur rafmagn ber einfaldlega ekki þá orku sem þarf til að keyra verksmiðjuna áfram.

Þá komum við að grundvallaratriði. Hér á landi hefur ekki verið unnið samkvæmt byggðaáætlun í háa herrans tíð. Það er í rauninni ekki unnið samkvæmt neinni byggðaáætlun, sem er sorglegt. Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins var ákveðið að Framsóknarflokkurinn skyldi taka forustu í þessu máli. Ég var fenginn af miðstjórnarfulltrúum þar til að leiða vinnu við að móta byggðaskýrslu sem Framsóknarflokkurinn ætlar að senda frá sér á næsta flokksþingi sem haldið verður í janúar eða febrúar á næsta ári. Samhliða þessu lagði þingflokkur Framsóknarflokksins fram þingsályktunartillögu á Alþingi þar sem ríkisstjórnin er hvött til að vinna að nýrri byggðaáætlun. Sú þingsályktunartillaga hefur því miður ekki enn komist til umræðu á Alþingi.

Meðan við í stjórnarandstöðunni erum sökuð um málþóf bíða 191 mál, eða síðast þegar ég athugaði, það hefur kannski breyst lítillega, þ.e. þingskjöl, þingsályktunartillögur og lagafrumvörp, afgreiðslu úr nefndum til að komast til umræðu. Það hefur verið fullyrt að við séum að tefja störf þingsins meðan ríkisstjórnin afgreiðir ekki mál úr nefndum, heldur þeim þar í gíslingu og kemur í veg fyrir að þau komi til atkvæðagreiðslu. Fullt af þessum málum eru góð mál en af því að þau eru ekki frá ríkisstjórninni skal þeim haldið niðri.

Fleiri atriði þurfa að koma fram með einum eða öðrum hætti í byggðaáætlun. Ef við viljum sjá allt landið í byggð — kannski eru hér þingflokkar sem vilja ekki sjá allt landið í byggð — verðum við að koma á sérstökum skattaívilnunum fyrir þá sem vilja búa úti á landi, sérstaklega í byggðum sem eiga undir högg að sækja. Það er t.d. hægt að veita nýútskrifuðum stúdentum úr háskólum landsins einhvers konar afslátt af námsgjöldum ef þeir eru reiðubúnir að fara út á land og búa þar og vinna í einhvern tíma. Þessar tillögur eru ekki dregnar upp úr hattinum sísvona, þessar tillögur eru samsvarandi tillögum sem bæði Norðmenn og Svíar eru búnir að setja fram og samþykkja á þjóðþingum sínum. Þar eru líka skattaívilnanir til þeirra sem þurfa að sækja vinnu um langan veg, að þeir fái þann kostnað metinn. Ég held að jafnvel þó að fólk búi á höfuðborgarsvæðinu vilji það halda landinu í byggð. Það er gott að búa í Reykjavík, en framtíð landsins liggur í því að traust byggð sé hringinn í kringum landið. Í því felast hagsmunir höfuðborgarinnar sem er ekki bara höfuðborg sjálfrar sín heldur alls landsins.

Af hverju er allt stopp? Af hverju næst ekki samstaða? Hér var einfaldlega sett á laggirnar sáttanefnd. Sú nefnd skilaði frá sér tillögum sem áttu sér samhljóm í öllum þingflokkum og hjá flestum ef ekki öllum hagsmunaaðilum. Þá kemur í ljós að einn stjórnarflokkur hagnast ekki á því að ná fram pólitískri sátt um fiskveiðistjórnarmál. Sá flokkur er Samfylkingin, virðulegi forseti. Samfylkingin hefur haldið uppi ómálefnalegum málflutningi um fiskveiðistjórnarkerfið og fyrir samfylkingarmenn, eins og fyrrverandi ráðherra, Eiður Guðnason að mig minnir, sagði, er alls ekki svo slæmt að fara í næstu kosningar og segja að þeir hafi reynt að breyta kvótakerfinu. Vandamálið er að þeir eru ekki að reyna að breyta þessu kerfi, þeir ætla einfaldlega að taka meiri pening úr því. Sú aðgerð hefur það í för með sér að hún mun bitna á sjávarbyggðum hringinn í kringum landið.

Mig langar að drepa aftur niður í áliti frá Langanesbyggð. Þórshöfn er í Langanesbyggð og þar hefur atvinnuástandið verið slæmt undanfarin ár og svæðið allt þar í kring hefur verið talið kalt í atvinnulegu tilliti. Það sem hefur hins vegar gerst á undanförnum árum er að atvinnulífið þar hefur batnað. Af hverju? Jú, vegna þess að Ísfélag Vestmannaeyja hefur fjárfest verulega í uppbyggingu fiskvinnslu á Þórshöfn og störfum hefur fjölgað jafnt og þétt bæði við fiskvinnslu sem og afleidd störf. Það er gaman að geta þess að í fyrsta skipti í langan tíma stóð til að byggja ný íbúðarhús á Þórshöfn.

Í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Einsýnt er að svigrúm það sem fólgið er í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi gerir Ísfélagi Vestmannaeyja kleift að byggja upp hagkvæma rekstrareiningu á Þórshöfn, fjárfestingu sem lagt er í með langtímahagsmuni að leiðarljósi, bæði hagsmuni félagsins og byggðarinnar.“

Nú hafa íbúar Vestmannaeyja gagnrýnt þessa ráðstöfun. Það sem hefur kannski gleymst í öllu þessu er að ef Ísfélag Vestmannaeyja þarf að draga saman seglin mun það væntanlega bitna fyrst á Þórshöfn, virðulegi forseti, vegna þess að hagsmunir Ísfélags Vestmannaeyja fara saman með hagsmunum byggðarinnar. Hvort sem okkur líka það betur eða verr er sjávarútvegur ein af undirstöðum atvinnu á landsbyggðinni, þar á meðal í kringum Þórshöfn.

Á Þórshöfn er líka rekin öflug útgerð sem gerir út bátinn Geir ÞH sem sér fjölmörgum fjölskyldum í sveitarfélaginu farborða. Þetta er ekki eins stór útgerð og Ísfélagið, virðulegi forseti, en þessi útgerð hefur á undanförnum árum fjárfest mikið í aflaheimildum til að styrkja rekstrargrundvöll sinn.

„Einnig rekur fiskvinnslufyrirtækið Toppfiskur myndarlega fiskvinnslu og -þurrkun á Bakkafirði sem skapar fjölda starfa á staðnum.“ — Ef Toppfiskur leggur niður fiskvinnsluna og -þurrkunina á Bakkafirði mun það byggðarlag leggjast af með tíð og tíma.

„Jafnframt eru í sveitarfélaginu fjölmargar útgerðir smærri aflamarksbáta sem veita eigendum sínum og öðrum trygga atvinnu.

Næg og stöðug atvinna hefur styrkt innviði alls samfélagsins, íbúum hefur fjölgað, þjónustustig hefur hækkað og nýverið var ákveðið að ráðast í nýbyggingar íbúða til að bregðast við fyrirsjáanlegum húsnæðisskorti á Þórshöfn. Í bígerð er að byggja nýjan leikskóla vegna þess að núverandi leikskóli er orðinn of lítill en hlutfall barnafjölskyldna er hærra en landsmeðaltal. Stöðguleiki ásamt dugnaði og skynsemi hefur því á löngum tíma skapað uppgang í Langanesbyggð, uppgang sem byggður er á virðingu við og skilningi á sjávarauðlindinni en ekki væntingum um skyndigróða líkt og hinn svokallaði „uppgangur“ sem varð á höfuðborgarsvæðinu í lok síðasta áratugar.“

Virðulegi forseti. Ég hef skamman tíma eftir af þessum ræðutíma, en ég vil segja eitt: Það er munur á stefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í þessu máli — svo að því sé haldið til haga. Við höfum lagt fram mjög skýra og afmarkaða stefnu en því miður hefur ríkisstjórnin ákveðið að koma fram og segja að þær breytingar sem hún er að gera með þessum tillögum séu samsvarandi því sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt til. Sá málflutningur var svo harður að þingflokkurinn sá sig knúinn til að senda frá sér samhljóða yfirlýsingu um að því miður væri fátt líkt með þeim tillögum sem hér eru lagðar fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og tillögum Framsóknarflokksins. Við erum reiðubúin að skoða hina svokölluðu auðlindarentu en við mundum aldrei nokkurn tíma, virðulegi forseti, láta hana bitna á sjávarbyggðum hringinn í kringum landið. Við lögðum líka til að þeir fjármunir sem kæmu í ríkissjóð færu til uppbyggingar og nýsköpunar á landsbyggðinni í þeim sjávarbyggðum sem auðlindarentan kæmi frá. Þetta er algjört lykilatriði,

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði í upphafi: Það er rangnefni á þessu frumvarpi, það á að heita frumvarp til laga um landsbyggðarskatt.