140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður byrjaði ræðu sína á því að segja að frumvarpsheitið veiðigjöld væri rangnefni á því frumvarpi sem við ræddum hér, þetta væri í raun og veru landsbyggðarskattur. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Hv. þingmaður notaði líka tímann vel til að vitna í þær umsagnir sem komið hafa frá sveitarfélögum víðs vegar um landið. Ég velti fyrir mér hvort þeir hv. þingmenn sem hyggjast styðja þetta mál hafi lesið þessar umsagnir. Þeir virðast ekki hafa gert það eða alla vega ekki tekið mjög alvarlega þau varnaðarorð sem þar koma fram. Það er full ástæða fyrir hv. þingmenn að fara ítarlega yfir þær, þá munu þeir hugsanlega hlusta einhvern tímann því að ekki eru þeir hér í þingsal til að taka þátt í umræðunni. Ég hef þó dálitlar væntingar um að þeir séu heima eða einhvers staðar á skrifstofum sínum að hlusta á umræðuna.

Hv. þingmaður kom líka inn á í ræðu sinni þá aðför sem gerð hefur verið að landsbyggðinni af núverandi hæstv. ríkisstjórn. Hann nefndi til að mynda heilbrigðismálin sem við börðumst við haustið 2010 þar sem til að mynda var boðaður 40% niðurskurður í Þingeyjarsýslum. Og ekki nóg með að það eigi að loka fyrir þessa opinberu þjónustu, grunnþjónustunni á landsbyggðinni, það á líka að standa í vegi fyrir allri atvinnuuppbyggingu með stóriðju í Þingeyjarsýslum.

Því vil ég spyrja hv. þingmann, en það er kannski til of mikils ætlast að hv. þingmaður geti svarað því: Hvað rekur þá hv. þingmenn áfram sem styðja frumvarpið, þingmenn sem eru jafnvel úr þessu kjördæmi, að koma svona fram gagnvart umbjóðendum sínum í kjördæminu? Hvað rekur þessa hv. þingmenn áfram sem eru forkólfarnir í þessum málum, þrátt fyrir öll þau varnaðarorð sem fram koma í umsögnunum? Hvers vegna vilja þeir loka fyrir og skera niður grunnþjónustuna og standa í vegi fyrir allri mögulegri atvinnuuppbyggingu? Og jafnvel þegar atvinnuuppbygging er sæmilega á veg kominn, þarf þá að skattdrepa hana líka?