140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir fyrirspurnina. Við höfum báðir reynt að sporna við því frá því að við tókum sæti í fjárlaganefnd að atlaga ríkisstjórnarinnar að landsbyggðinni næði fram að ganga. Ef við rifjum upp skrefin á þessu kjörtímabili eru þau í raun ótrúleg, á hverju einasta ári fer maður á íbúafund, borgarafund þar sem aðgerðum ríkisstjórnarinnar er mótmælt harðlega.

Vandi höfuðborgarsvæðisins liggur í því að hér eru skuldug heimili og það þarf að fara í þær aðgerðir, það þarf að slökkva þá elda. Það hefur ríkisstjórnin ekki gert. Í staðinn hefur hún verið að kveikja elda á landsbyggðinni, eins og hv. þingmaður bendir á. Það er ótrúlegt að þessar tillögur skuli hafa komið fram um niðurskurð í heilbrigðismálum og marglofaða atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum sem hefur nú heldur betur staðið á sér. Það er ágætt að rifja það upp að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra hafa komið hér og sagt að Þingeyingar skyldu búa sig undir stórfellda atvinnuuppbyggingu. Það er nú heldur betur farið að fenna yfir þau orð, virðulegi forseti.

Ég kom inn á það í ræðu minni og einnig hv. þingmaður að allar umsagnir sveitarfélaga í Norðausturkjördæmi, sem koma ekki nú bara frá framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum heldur líka frá sveitarstjórnarmönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, vara stórlega við því að frumvörpin verði samþykkt, nánast hver einasta frá Siglufirði til Djúpavogs. Við ættum að hlusta vel á það. Hér er ekki verið að vitna til stefnu (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins, hér er vitnað í ummæli (Forseti hringir.) frá sveitarstjórnum úti á landi.