140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna yfirlýsingu hv. þingmanns um að sveitarfélögin séu að gæta almannahagsmuna með málflutningi sínum, því að þegar sveitarstjórnarmenn álykta í þessum efnum eru þeir auðvitað að verja almannahagsmuni í byggðarlögum sínum. Og hvernig getur það verið að það séu einhverjir sérstakir sérhagsmunir þegar sveitarstjórnarmenn leggja áherslu á að fyrirtækin í landinu og fyrirtækin í byggðarlögum þeirra þurfi að standa sterkum fótum? Eru menn ekki einmitt að gæta almannahagsmuna þegar þeir gera það?

Mér hefur fundist það alveg yfirgengilegt tal sem hefur heyrst undanfarna daga af hálfu stjórnarliða, þetta stórbokkatal, þetta yfirlætislega, drambslega tal þeirra um að allir þeir sem ekki eru sammála þeim um fiskveiðistjórnarlögin gangi erinda einhverra hagsmunahópa. Þetta lýsir að mínu mati alveg ótrúlegum hroka í garð fólks. Menn tala eins og ætla mætti að þetta fólk hefði ekki sjálfstæðan vilja, hefði ekki skoðun á nokkrum hlut, þekkti ekki neitt til málanna og sé bara að láta nota sig eins og hverja aðra gólftusku. Það er auðvitað (Forseti hringir.) fyrirlitlegt að menn tali þannig til dæmis til stéttarfélaga, til sjómanna, til fiskverkafólks og sveitarstjórnarmanna.